Skírnir - 01.01.1945, Qupperneq 234
232
Ritfregnir
Skírnir
skrifari Hauks hefur ritað, en mikið, þar sem hann hélt sjálfur á
pennanum (yfir 30% miðað við hdrr. Möðruvallabók og Flateyjar-
bók). — Annars er það einkennilegast um lengri textann, að þar
eru hér og þar einkennilegar klausur, ýmist með miðaldalærdómi
(t. d. líffærafræði) eða skáldlegu orðagjálfri (t. d. úr Flat.: „Ok
er hann var handtekinn, skalf í honum leggr ok liðr fyrir hræzlu
sakir. 011 bein hans skulfu, þau er váru í hans líkama, en þat váru
200 bein ok 13 bein. Tennr hans nötruðu, þær váru 30; allar æðar
í hans hörundi pipruðu fyrir hræzlu sakir, þær váru 415.“). Ef
Möðr. og Flat. eru um allt frumlegri að texta en Hauksbók, ættu
þessar klausur að vera úr frumgerð sögunnar, en það hefur mönn-
um yfirleitt ekki litizt á„ en höf. heldur því fram, og er því mikill
nýjabragur á þessum kafla. Á þessu sama hafði Sigurður Nordal
ymprað í inngangi Borgfirðingasagna, og það var Dr. Jansson
kunnugt um, en síðan hefur Sigurður ritað um þetta sama efni í
inngangi Vestfirðingasagna (§ 10), og er gaman að fá þessar tvær
óháðu rannsóknir á þessu. Eg skal geta þess, að ef þessi skoðun
væri rétt, gæfi þessi texti Fóstbr. þó ekki rétta mynd af frumtextum
hinna elztu Islendingasagna, heldur Heiðarvígasaga, sbr. og elztu
konungasögur og heilagra manna sögur.
Síðast í bók Dr. Janssons er kafli um ritunarstað Eiríkssögu,
sem hapn heldur sé Snæfellsnes. Færir hann að því gild rök.
I heild sinni er mikill fengur að þessari bók, sem ekki er aðeins
gaumgæfileg undirstöðurannsókn á texta Eiríks sögu rauða, heldur
og gagnlegur þáttur torveldrar rannsóknar, sem langa nót er að að
draga, áður en fullgerð er: en það er rannsóknin á þróun forn-
íslenzks sagnastíls. Bókin er höfundi sínum til sóma.
E. Ó. S.
Gríma. Tímarit fyrir þjóðleg íslenzk fræði. Ritstjórar: Jónas
Rafnar og Þorsteinn M. Jónsson. XX. h. Akureyri 1945.
Með þessu 20..hefti Grímu er lokið 4. bindi ritsafns þessa, sem
hóf göngu sína árið 1929. Stofninn í fyrstu tveimur bindunum var
eftirstöðvar úr þjóðsagnasafni Odds Björnssonar, en hinir nýju
útgefendur juku þar miklu við og endurbættu það, sem fyrir var.
En að því loknu var Grímu gefið tímaritsheiti, og hefur hún síðan
eigi verið jafnbundin við þjóðsagnir einar, enda hefur hún við og
við flutt ritgerðir um þjóðsagnir og skyld fræði auk sagnanna, sem
verið hafa meginefni hennar. Er þar bæði að finna eiginlegar þjóð-
sagnir og sannsögulega þætti um ýmsa atburði, svaðilfarir, slys og
æviþætti. Er safn þetta allt orðið hið merkilegasta, þótt vitanlega
sé það misjafnt að gæðum. En þeir ritstjórarnir hafa stöðugt látið
sér annt um að velja efni og búa það sem bezt til prentunar, enda
eru þeir báðir smekkmenn á þá hluti og manna fróðastir um þjóð-
sagnir.