Skagfirðingabók - 01.01.1970, Blaðsíða 16
SKAGFIRÐINGABÓK
mundi vera dagsverk að sækja hestinn, en mér var vel vært með
þessa ferð, því ég mundi kanna ókunnuga stigu, mér til ánægju. Næsta
dag fór ég að sækja hestinn og var 7 tíma í ferðinni. Hrossin voru
fram hjá Stórhól í Afréttinni, eins og Hrólfur sagði. Veður var gott,
snjólaus jörð, en dálítið farið að frjósa.
Þegar ég kom úr þessari ferð, spurði ég Hrólf um ýmislegt, hvort
langt væri frá Stórhóli og fram að Fossá og hvort Fossá væri mikið
vatnsfall. Hann sagði, að Fossá væri aldrei grynnri en á miðjar síður
og þeir, sem ekki hefðu séð, hversu ill hún væri, tryðu því ekki. Svo
spurði ég hann um þessi hrikalegu fjöll með dalnum að austan, hvort
þar væri gróður og hvort þar uppi væri nokkuð leitað á haustin.
Svar hans var á þá leið, að þegar skammt væri komið frá fjallabrún-
unum, væri með öllu gróðurlaust, ekki stingandi strá, ekkert nema
grjót og sums staðar ekki einu sinni sandkorn á milli steinanna. Sauð-
fé getur hlaupið þarna um á sumrin og gerir það eitthvað, en þar er
ekki leitað á haustin. „Við látum austan hríðarnar smala ofan í brún-
ir og daladrög, og þangað er það sótt".
Næsta dag fór ég heim með hestinn og teymdi hann, því ójárnaður
var hann eða flatjárnaður, en þó reið ég honum yfir Jökulsá undan
Ábæ, þar sem Hrólfur vísaði mér á vað. Áin var þar í tveimur kvísl-
um og ekki dýpri en svo, að hún vætti kvið, en skarir nokkrar. Um
leið og ég fór, sýndi Hrólfur mér hrúta sína tvo, sem báðir voru
ungir. Ég skoðaði þá vandlega og eftir mínu viti hafði ég ekki séð
betri hrúta og varla svo góða. Þegar ég spurði um uppruna þeirra,
var sagan sú, að Hrólfur hafði fundið þá í eftirleit frammi á Fjöllum,
þegar þeir voru lömb, og voru þeir úr Þingeyjarsýslu, og undraði mig
þá ekki, því á þessum tíma stóð sauðfjárrækt Þingeyinga með mikl-
um blóma.
Svo liðu árin til 1942, að ég hafði lítil kynni af Hrólfi, en þá um
sumarið lágu leiðir okkar saman uppi á fjöllum. Hann var þá varð-
maður vegna mæðiveikivarna og hafði aðsetur í Orravatnsrústum.
Samstarfsmaður hans og tjaldfélagi var Sveinn Sigurðsson, þá bóndi á
Þorljótsstöðum. Þetta sumar var ég að flytja girðingarefni, og um
mitt sumarið hafði ég líka aðsetur í Orravatnsrústum við þriðja
mann, og vorum við með 18 hesta undir reiðingi. Þetta var ánægju-
14