Skagfirðingabók - 01.01.1970, Side 63
SKÁLAMÝRI
lagið á nýjan veg: að „ofan til Norðurár" eigi ekki við landið austan
Jökulsár, heldur landið, sem Eiríkur hélt eftir í Tungunni, er hann
hafði gefið Hreiðari hana „alla niður frá Skálamýri". Landnáma geym-
ir með öðrum orðum slitur úr heillegri lýsingu þess, hvert verið hafi
landnám Eiríks upphaflega og eftir að hann átti skipti við Hreiðar.
Algengt var fram eftir öldum, að mið ákvörðuðu landamerki; tekin
voru mið af kennimörkum í umhverfinu og þannig dregnar loftlín-
ur, sem kváðu á um lönd jarða. Úr Norðurá, þar sem hún fellur fram
á eyrarnar og í Héraðsvötn, liggur loftlína yfir Tunguna og sker hana
sundur sem næst í tvo hluta jafnstóra. Sá er því staddur á Tungunni
miðri, frá suðri til norðurs, sé Norðurá, þar sem hún fellur í Vötnin, í
háaustur frá honum. Línan liggur í vestur fast norðan Breiðumýrar í
Brúnastaðalandi, hún væri samkvæmt því kennimark vestan í Tung-
unni, en Norðurá austan megin.
Breiðamýri liggur í slakka miklum, sem gengur austur í Tunguna
sunnan við Hellisás, og verða þar glögg skil í landslagi. Hún er stór,
25—30 ha, var blaut mjög áður, en hefur nú verið ræst fram. Skála-
mýri er þar réttnefni ekki síður en Breiðamýri, og sú athugun er
skökk, að SkáWmýri hæfði betur, því hvilftir og bollar ganga á alla
vegu inn í ása þá, sem lykjast um mýrina, og ræður það lögun henn-
ar að nokkru. Sést það greinilegast, þegar hátt er staðið, t. d. á Hellis-
ásnum.
IV.
í FRÁSÖGNINNI af landnámum í Skagafirði eru alls 85 staða-
nöfn innanhéraðs. Af þeim hafa 57 haldizt óbreytt fram á þann dag
í dag (hér er það ekki talin breyting, þótt t. d. Langaholt verði: Lang-
holt), en sem næst þriðjungur allra nafnanna hefur annaðhvort breytzt
í meðförum hægt og hægt eða horfið úr notkun og önnur verið tekin
upp. Að sumum stöðunum, sem þau nöfn vísuðu til, má ganga með
var úr landi Skatastaða), og hefur það löngum þótt einkennilegt, slík torfæra
sem áin er. En þetta skýrist, ef sögnin um tundurskotið er tekin gild, Skata-
staðaland er þá í fornum tengslum við landnám Onundar austan ár.
61