Skagfirðingabók - 01.01.1970, Blaðsíða 205
HORFT TIL BAKA
sínu. Ég held, að það hafi verið draumur hans að verða stórbóndi. En
erfitc var að ná því marki á þeim tímum, enda jörðin of lítil til þess.
Hann mun hafa verið með þeim fyrstu, er ræktaði utan túns, að
vísu ekki í stórum stíl, enda engin verkfæri nema undirristuspað-
inn og skóflan, og svo var áburður af skornum skammti, sauðataðið
notað mikið sem eldsneyti, þó aðallega væri það mórinn. Einar byggði
upp bæinn ári 1912, stóra baðstofu, eldhús og bæjardyr. Gömul stofa
var þar og nýja baðstofan byggð í áframhaldi af henni, og myndaði
það eina heild. Var þetta timburhús að mestu leyti. Þarna var sofið
og unnið. Einar hafði lært bókband áður en hann giftist, og stundaði
hann það í öllum frístundum að vetrinum. Heyrt hef ég, að hann hafi
gert það alveg fram að þessum tíma, en hann er nú orðinn 94 ára
gamall. Að bókbandinu vann hann í baðstofunni. Ekki mun hann hafa
haft mikið upp úr því. Hann var mjög vandvirkur, og þóttu bækur frá
honum vel bundnar. Vefnað hafði hann lært líka og stundaði hann
eitthvað.
Einar var tvíkvæntur. Fyrri kona hans og húsmóðir mín var Geirlaug
Gunnlaugsdóttir, sem fyrr getur, ágætiskona, myndarleg í sjón og raun,
vildi öllum vel og allt gott gera. Þau áttu þrjú börn. Geirlaug andaðist
1922. Síðari kona Einars var Hólmfríður Helgadóttir frá Læk í Við-
víkursveit.
Um veru mína í Mýrakoti er ekki mikið að segja. Á sumrin var ég
látin passa kvíaærnar, sitja yfir þeim framan af sumri og síðan smala
þeim kvölds og morgna til mjalta í færikvíum. Skemmtanir voru fá-
breyttar, helzt gripið í spil, ef einhver kom, en á vetrum var farið á
skauta á vatninu. Var þar oft fjölmenni á sunnudögum, sérstaklega ef
hægt var að fara á skautum alla leið innan úr Hofsós. Líka áttu
margir skíði. Voru þau heimagerð, en brekkur voru litlar í nágrenn-
inu. Þá þekktust ekki þær íþróttir á skíðum, sem nú eru tíðkaðar, skíð-
in voru einkum samgöngutæki að vetrinum. Sumir lásu mikið bækur,
þegar völ var á þeim, en ekkert lestrarfélag var í hreppnum, og fáir
höfðu efni á að kaupa þær. Þó voru alltaf nokkrir, sem áttu dálítið
safn bóka, en þeim var mjög annt um það og lánuðu ekki bækur
nema beztu vinum sínum.
Hjá hinum fátækari í hreppnum var kaupstaðarúttekt sáralítil, helzt
203