Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Blaðsíða 48
44
MÚLAÞING
Uppi yfir stofu og skemmu var portbyggt geymsluloft, ýmist kallað
stofuloft eða skemmuloft, með sex rúðna glugga á stafni fram að hlaði.
Var það alþiljað innan, súð með reisifjöl.
Þegar komið var upp úr stiga á stofuloft, var stór, tvískipt kornbyrða
á hægri hönd, við suðurhlið. I öðrum hluta hennar var geymdur rúgur,
en í hinum rúgmjöl. Tvær kistur stóðu innar (austar) við suðurhlið. I
annarri þeirra, s. k. grjónakistu, voru grjón (bankabygg og hrísgrjón)
geymd, en í hinni oftast ýmis önnur matvæh. Þrjár kistur stóðu við
austurstafninn; var „Græna kistan" í miðið, undir glugga. Við hana eru
bundnar góðar minningar um sætar kökur, súkkulað, rúsínur og fleira
góðgæti, og er hún nú í minni eign. I kistum þessum og reyndar einni í
viðbót, sem var við norðurhlið, voru oftast geymd ýmiss konar matvæh.
Margt fleira en matur var geymt á lofti þessu.
Vestan skemmu og stofulofts var baðstofan. Var þar á milli tvöfaldur
timburveggur með tróði á milli. Baðstofan var tvílyft og portbyggð,
fjögur stafgólf á lengd og samkvæmt mati 1917 (F'18) 11 álnir á lengd og
6 álnir á breidd.
Gengið var inn í baðstofuna úr þvergangi, er síðar getur. Var þá fyrst
komið inn í herbergi undir palli (á neðri hæð), sem kallað var pilthús.
Þar sváfu vinnumenn. Tvö fastarúm (negld við vegg) voru í pilthúsinu,
annað við suðurhlið, en hitt við norðurhlið, og sneru höfðalög þeirra að
austurvegg. Að fótagafli þess rúms, er við norðurhlið var, féll hurðin til
vinstri, þegar inn var gengið í pilthúsið, en til hægri var stigi upp á
baðstofuloft, sem alltaf var kölluð baðstofa. Undir stiganum var afþiljuð
,,kompa“ með lítilli hurð fyrir. Lítið borð stóð við austurvegg, og koffort
vinnumanna við rúm þeirra. Sex rúðna gluggi var á suðurhlið, nær beint
á móti dyrum, með gluggaskoti utan hans. Ur pilthúsi var gengið inn í
annað herbergi, sem kallað var hjónahús, áður en baðstofan var stækk-
uð árið 1905, en síðan oft nefnt ,,húsið“. Það var jafnstórt og pilthúsið.
A því var sex rúðna gluggi til suðurs og gluggaskot eins og á pilthúsinu.
Var helmingur gluggans á hjörum og því hægt að opna hann. í þessu
herbergi var eitt færirúm, borð, stólar, setubekkur, fataskápur og
kommóða, og stóð á henni bókaskápur með gleri í hurðum. Var her-
bergið ýmist haft fyrir gesti eða heimafólk, en síðar var það aftur gert að
hjónaherbergi og þá settur í það ofn.
Bæði þessi herbergi á neðri hæð baðstofunnar voru þiljuð innan með
tvískiptu spjaldþili. Vefstóll var settur upp í pilthúsi á veturna. Stóð
hann við vesturvegg, sunnan dyra inn í „húsið“. Var þar ofið vaðmál,
bæði í innri og ytri föt heimilisfólks, undirflíkur í rúm og rúmteppi.