Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Blaðsíða 141
MULAÞING
137
Nú er að segja frá Jörgen á Skjóna. Af einhverri tilviljun (ef það var
tilviljun?) er hann staddur það nærri er Þórarinn neyddist til að sleppa
föður mínum, að hann nær að grípa í peysukraga hans og draga hann að
sér. Nú sneri hesturinn þannig að beinast lá fyrir að halda áfram norður
yfir ána, um 80 m sund, og þar enginn til að taka á móti hröktum
mönnunum nema unglingur sem passaði féð fyrir norðan. Og ekki gat
Jörgen hætt á að snúa hestinum með beislinu, því þá var líklegt að hann
keyrði hann í kaf. En hver sem skýringin er — þá sneri blessuð skepn-
an við sjálfviljug til sama lands aftur þar sem allir biðu eftir að taka á
móti föður mínum nær rænulausum. — Allt frá þessari stundu hefur sú
spurning leitað fast á huga minn — hver sneri hestinum við til sama
lands aftur?
Nú vildi svo til að hjá okkur var staddur gamall maður er Benedikt
hét Isaksson og hann átti alltaf vín þó aldrei neytti þess sjálfur. Hafði
gaman af að gefa vinum sínum. Nú dreif hann vín í pabba, og svo var
honum hjálpað heim og háttaður ofan í rúm sem velgt hafði verið með
flöskum með heitu vatni. Hitapokar þekktust þá ekki. Helst er ég á að
heitar flöskur hafi mörgu mannslífinu bjargað á umliðnum kuldaárum
og öldum.
Af Þórarni er það að segja, að eftir að hafa hvílt sig stutta stund og
farið í þurr föt, hélt hann áfram að vinna eins og ekkert hefði gerst.
Þegar þetta hafði nú fengið þennan farsæla endi létti yfir fólkinu. Var
nú farið að hugsa um hvernig mætti ná ferjunni, því sumt af fénu var
komið norður yfir og ekki voru þar öll lömb með réttum mæðrum.
Einnig höfðu nokkrar kindur úr sokknu ferjunni flotið upp á stóra eyri í
ánni austur af Hrísnesinu, ysta og austasta tanganum á Valþjófsstaða-
nesinu við ána, en í þá eyri lentu oft lömb sem reyndu að synda austur
yfir. Það varð því að gæta þeirra vel fyrir norðan, því ef þau heyrðu í
mæðrum sínum austan ár sóttu þau í ána. Hins vegar var ómögulegt að
láta allt fara rétt í ferjuna. Eins voru til forustukindur sem gæta varð
mjög vel þegar rekið var í réttina. Sóttu þá í ána. Eg átti lengi mórauðan
forustusauð sem aldrei fór í ferjunni þrátt fyrir háan aldur. Síðasta árið
sem hann lifði lét ég sitja um að grípa hann um leið og hann rann í
réttina. Var hann settur fyrstur í ferjuna, en hann gerði sér þá lítið fyrir,
hljóp fram í stafn, stökk yfir grindverkið á borðstokki og steypti sér til
sunds í ána. Hann gat stokkið allt að axlarhæð meðalmanns og það á
móti brekku.
En nú var ekki annað ráð fyrir hendi en að sækja róðrarferjuna í
Hrafnkelsstaði, en þar var lögferja á ánum. Hún var mikið stærri, breið-