Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Blaðsíða 96
92
MÚLAÞING
kennsluaðstaðan á neðri hæðinni, og voru notuð 2 allstór herbergi og
annað eingöngu fyrir kennslu, en hitt notað sem leikherbergi. Var
kennslustofan kynt og lýst með olíulampa. (A. Þ. og M. Þ.).
1912 kemur svo Valdemar Þórarinsson aftur til starfa (og er þá í
gjörðabók fræðslunefndar titlaður farkennari og búfræðingur). Kennir
hann næstu 2 ár, að mestu á Hóli, en seinna árið virðist kennslan bara
hafa farið fram á einum stað og staðið í 3 mánuði.
1914 kennir Sigurbjörg Jónsdóttir frá Búðum í Fáskrúðsfirði, en hún
hafði stundað nám í kvennaskólanum á Blönduósi og fengizt við
kennslu barna og unglinga áður. (Gjörðabók fræðslunefndar). Varð hún
síðar kona Sigurbjörns Guttormssonar. Kenndi hún samfellt til 1917,
fyrsta árið á Hóli, hið næsta í Löndum í 2 mánuði og á Hóli í 2 mánuði,
en þriðja árið í Laufási, bæ Ara Stefánssonar, sem þá var formaður
fræðslunefndar. Var kennt í einni stofu uppi á lofti í útenda og var
annað lítið herbergi fyrir framan til leikja. Húsið var úr timbri, pappa-
klætt og járnvarið. Var kennslustofan hituð upp með olíulampa (,,20
línu dreifara“) (A. Þ. og M. Þ.). Bærinn í Löndum var sama hús og nú
er nefnt Innstu Lönd, en er nú að vísu nokkuð breytt. Var þá tvíbýli
þar, bræðranna Erlendar og Þorsteins Kristjánssona. (S. J.)
Arið 1917 kennir Sigurbjörn Guttormsson aftur. Er þá skólinn nefnd-
ur farskóli (6 ferðir 20. nóv.-20. apríl) og Sigurbjörn titlaður sem eftir-
litskennari.
Næsta ár kennir Níels Sigfinnsson frá Tungu (áður Gestsstöðum) í
Fáskrúðsfirði. Þá er skólinn aftur nefndur farskóli og í fundargerð
fræðslunefndar frá 10. okt. 1918 segir svo: „Eftir nokkrar umræður
komst nefndin að þeirri niðurstöðu að helsta ráðið yrði að hafa umferð-
arkennara á næsta fræðslutímabili, en sameina þó börn það sem unnt
væri til þess að þau gætu notið sem mestrar uppfræðslu. En álit nefnd-
arinnar var þó, að staðirnir mundu hljóta að verða 5-6 þar eð skóla-
skyld börn eru 26-28 að tölu í fræðsluhéraðinu."
Arið 1919 er starfstími kennara frá 1. nóv. til 30. apríl — þ. e. 6
mánuðir. Þann vetur gegndi Guðrún Tómasdóttir (ættuð frá Norðfirði)
(A. Þ. og M. Þ.) starfinu og kenndi í Laufási en auk þess á Heyklifi (hjá
Jóhanni Pálssyni) og á Oseyri (hjá Þorsteini Mýrmann). Guðrún giftist
Ara Pálssyni (bróður Jóhanns á Heyklifi) en dó ung. (A. Þ. og M. Þ.).
Arið eftir ræðst Guðrún aftur til starfa, en þó aðeins til 12 vikna (að
því er virðist til farkennslu) og auk þess kenndi Sigurbjörn Guttormsson
í 4 vikur. Þessi stutti kennslutími virðist eiga sér þá skýringu er kemur
óbeint fram í fundargjörð fræðslunefndar frá 27. okt. 1920: „Fundarefni