Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Blaðsíða 169
RÓSA GÍSLADÓTTIR
Papeyjarpistill
Það er seint í júlí 1977, að ég er heima í fríi í Krossgerði við Berufjörð.
Þá er það einn sólskinsdag er ég sit úti og nýt sólarinnar, að ég ákveð að
fara með mjólkurbílnum næsta dag til Djúpavogs. Sú áætlun mín stóðst,
og komst ég þangað og heimsótti vini og kunningja.
Flesta dreymir bæði í svefni og vöku, einn af vökudraumum mínum
var að fara út í Papey. Eg var búin að vera í þessu byggðarlagi í marga
áratugi, en hafði aldrei komið þangað út. Séð eyna í vondu og góðu
skyggni og oft í hillingum sem kallað er. Ég hafði heyrt rödd Gísla
Þorvarðarsonar bónda í Papey, er hann talaði við Djúpavog í talstöð frá
eynni. Það var Gísli Guðmundsson símstöðvarstjóri á Djúpavogi sem
svaraði, eða Ingibjörg Eyjólfsdóttir kona hans. Og seinna varð það rödd
Gústafs sonar hans, sem við hlustuðum á. Við heyrðum vel til þeirra í
útvarpstækinu okkar. Nú er ekki talstöð í Papey, en systkinin Sigríður
og Gústaf hafa verið þar um tíma yfir sumarið. Og nú stóð svo á að
Sigríður var ein úti í eynni, og frétti ég að Gústaf ætlaði út á bát sínum,
þegar yrði gott í sjóinn. Nú vildi svo vel til að ég hitti Gústaf og bið hann
um far út í Papey. Tók hann vel bón minni.
Daginn eftir, sem er mánudagur 25. júlí, er sólskin og gott veður. Þá
er ég hjá kunningjafólki á Djúpavogi og læt sólina baka mig. Um fimm-
leytið um daginn fæ ég boð, að nú ætli Gústaf út í ey, og dótturdóttir
hans, ung stúlka, Svandís Sverrisdóttir, sem er fyrsta konan hérlendis,
sem lýkur námi í húsasmíði. Við bryggjuna lá lítil grænmáluð trilla, sem
Gústaf á. Hún er komin til ára sinna og hefur farið margar ferðir milli
lands og eyjar. Fljótlega vorum við öll mætt á bryggjunni og fórum um
borð í trilluna. Það var lagt frá landi og á bryggjunni stóð eftir ung og
elskuleg stúlka, vinstúlka Svandísar, og veifaði okkur. Báturinn rann
mjúklega út með landi, og stýrði unga stúlkan honum, en þegar lengra
var komið út tók Gústaf við stýrinu. Nokkur þungi var í sjónum og ekki