Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Blaðsíða 152
148
MÚLAÞING
Því miður var þessum ferðum ekki hætt þegar minn tími rann út. Þá
tók við þeim Guðmundur Sigurðsson á Eskifirði, en það var stuttur tími
sem hann flutti póst þessa leið, því að hann fórst í snjóflóði á Skóga-
skarði milli Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar síðla vetrar 1942.
Guðmundur kom við hjá mér á heimleið úr næstu ferð á undan hinni
örlagaríku ferð. Þá ræddum við um leiðir yfir fjöllin. Hann sagðist einu
sinni hafa farið Króardalsskarð og ekki fara það aftur. Það væri bæði
hátt og bratt og hann treysti sér ekki til að ganga það á broddum. Ég
hafði aftur á móti ekki farið aðrar leiðir yfir þennan fjallgarð og mælti
með henni, viðkomustaður væri í Firði, skarðið þar fyrir ofan, síma-
staurar víða til leiðbeiningar og vel mætti fara þær leiðir þar án mikilla
króka, að ekki væri hætta á snjóflóðum og hættulegustu brekkunum að
ganga á broddum mætti fara framhjá án þess að taka á sig stóra króka.
En hann taldi sig miklu öruggari á Skógaskarði. I næstu ferð á eftir féll
snjóflóð á hann í sunnanverðu Skógaskarði er hann var á suðurleið.
Þegar hann kom ekki til Mjóafjarðar á venjulegum tíma var safnað
mönnum og hafin leit. Er hann fannst var hann örendur og var álitið að
hann hefði látist strax. Nú var þessum póstferðum hætt.
En hver var borgunin fyrir þetta starf? Aður hef ég aðeins getið þess
hver launin voru árið 1912, eitthvað innan við 30 krónur fyrir ferðina.
Nú hef ég ekki hjá mér hver launin voru þegar ég hóf ferðirnar í ársbyrj-
un 1925, en frá og með árinu 1932 til ársins 1940 hef ég skrifað hjá mér
launin. Þau voru 72 krónur og 25 aurar fyrir hverja ferð. Fyrir þetta
gjald var póstinum skylt að bera 20 kg, en væri flutningur meiri fékk
hann eina krónu fyrir hvert kíló umfram 20 kg. Var það dálítil uppbót,
sérstaklega ef ekki þurfti að fara með aukaburð nema yfir einn fjallveg.
Aldrei var sótt um launahækkun og aldrei farið í verkfall. Þegar ég tók
við ferðunum bauð póststjórnin mér þær ef ég vildi taka þær fyrir sömu
laun og greidd hefðu verið, en þau gætu þó breyst eftir almennum
launagreiðslum. Ef ég tæki ekki þessu boði auglýstu þeir starfið og þá
gæti ef til vill einhver boðist til að taka það fyrir minna kaup. Hvað átti
ég að gera? Eg var fátækur, átti lítinn bústofn, ekkert lausafé og þá var
ekki mikið lánstraust — og lánin þarf að borga.
Vissulega munaði mig um þessa peninga og þeirra þurfti ég með. Hér
í Skuggahlíð þurfti margt að gera ef lifa ætti hér mannsæmandi lífi,
byggja yfir fólk og fénað, koma upp heygeymslum og rækta jörðina. A
jörðinni hafði ég fest kaup fyrir nokkrum árum. Þessi póstlaun voru
fundið fé því þeirra var aflað að vetrinum þegar lítið var annað gert en
að hirða gripina, og til þess hafði ég nóg fólk þá fáu daga sem ég yrði í