Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Blaðsíða 137
MULAÞING
133
fyrir hreysti og áræði tveggja manna — og hjálp frá ósýnilegum vinum
— að svo varð ekki. En eru það ekki einmitt erfiðleikarnir — erfiðleik-
arnir sem manni tekst að sigrast á, sem hugstæðustu minningarnar eru
tengdar? Og svipaða nótt lifði ég ekki (sem betur fer, ekki slysanótt) allt
frá því ég man fyrst og fram yfir 1950, er brýr komu á árnar.
Þessi næturvinna var sú, að koma fénu á suðurbyggð á fjall. Engir
bæir á austurbyggð (eins og suðurbyggð er nefnd í Fljótsdal) eiga afrétt-
arlönd að Sturluflöt undanskilinni, bæir austan stóránna Kelduár og
Jökulsár. Afréttur þeirra allra liggur vestan ánna, eða norðan við þær
eins og kallað er. í ágætri grein í Múlaþingi, eftir Methúsalem J. Kjer-
úlf, um straumferjuna lýsir hann að nokkru erfiðleikum suðurbyggja við
að koma fénu á afrétt og aðdraganda þess að sett var straumferja á
Jökulsá.
Ekki er mér kunnugt um hvenær fyrst var byrjað að reka fé á fjall á
suðurbyggð. En löngum var róið með það yfir árnar á lítilli róðrarferju
hjá Hrafnkelsstöðum eins og Methúsalem minnist á í grein sinni. En
með brúnni hurfu þessi vinnubrögð. Höfðu suðurbyggjar lengi barist
fyrir því að fá brýr á árnar.
Enginn mun nú sakna þessara nótta, en þó er það svo — að margar
þessar vökunætur eru meðal minna hugljúfustu minninga, og aldrei
mun ég gleyma þeim hughrifum er um mig fóru er ég sá á eftir síðustu
ánni inn og upp í Kleifarskóginn innan við Ófæruselið, innsta býlið sem
líklega hefur verið búið á norðan Jökulsár í Fljótsdal. — Þó minnist ég
þess líka með þökk og gleði í huga, þegar við rákum fyrst yfir á brúnni.
En þannig er mannlífið. Margslungið.
Nú langar mig hér á eftir að reyna að bregða upp svipmynd af þessari
vinnutilhögun áður en hún gleymist og týnist og þeir sem þessar nætur
lifðu verða allir gengnir til feðranna, ef einhverjir skyldu hafa ánægju af
að lesa þetta. — Mun ég halda mig við nóttina þegar fyrsta ferjan sökk
og nærri lét að faðir minn drukknaði, en reyna að lýsa þessari smala-
mennsku og rekstri frá því að fyrstu mennirnir halda til smalamennsk-
unnar á Gilsárdal á mánudagsmorgni og fram á miðvikudagsnótt er
síðasta ærin heldur inn og upp í Kleifarskóginn. — En þá var eftir að
ríða heim um margra kílómetra veg, kannski sundríða árnar til baka og
sjaldan komið heim á leiðarenda fyrr en síðari hluta nætur.
Klukkan er sex að morgni í byrjun vinnuviku síðast í júní. Undan-
iarna daga hefur verið sólfar og hiti og árnar því í töluverðum vexti.
Daginn fyrir er ákveðið á bæjum á austurbyggð í Fljótsdal að notfœra
ser vatnavextina og koma fénu yfir vötnin á fjall. Straumferjan gekk