Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Blaðsíða 118
114
MÚLAÞING
skólanum (fullnaðarprófsbörn 1963) er voru frá 9—15 klst. á viku.
Kennslugreinar: íslenska, danska, reikningur, handavinna og leik-
fimi.“
Ekki var aftur komið á fót unglingakennslu fyrr en veturinn 1965-
1966, þ. e. fyrsta árið, sem kennt var í nýja skólanum. Gefum Sólmundi
Jónssyni orðið: „Þetta sama haust (1965) var nemendum af suðurbyggð
Fáskrúðsfjarðar ekið til Stöðvarfjarðar. Þeir voru 8 talsins. Ekki þótti
það vel takast, vegakerfi var slæmt, mikil snjóþyngsli þennan vetur og
komust nemendur sjaldan í skólann. Eftir tveggja vetra akstur til Stöðv-
arfjarðar hófu þeir aftur nám í heimabyggð. Höfðu þeir haft lítið gagn af
skólavistinni, en stuðluðu að því að leyfi fékkst til að koma á unglinga-
deild, því nemendafjöldi í skólanum komst á 1. ári upp í 42.“ (Grunn-
skóli Stöðvarfjarðar og Grunnskólar í Austurlandsumdæmi, 32).
IX.
Lengd kennslutíma, kunnátta, námsefni, kennslutœki
Áður er getið um lengd skólaársins fyrstu árin að svo miklu leyti sem
heimildir gera það kleift, en ekkert hefur enn verið rætt um daglegan
kennslutíma. Mun ég nú leitast við að gera þessum atriðum örlítil skil.
Mér virðist að mörg fyrstu árin hafi skólinn ekki starfað nema 2-4 tíma
á dag. Þegar deildir urðu tvískiptar var þó skóiatími hjá „eldri deild“
lengri en hjá hinni. Alltaf var kennt á laugardögum og var raunar svo
fram til 1976. Hinn 26. marz 1944 er bókað á fundi skólanefndar: „Til-
laga frá námsstjóra að breyta 3 kennslustundum í 4 kennslustundir.“
Þykir mér trúlegt, að eftir því hafi verið farið a. m. k. varðandi eldri
börnin.
Aukin kennsla yngstu barnanna var m. a. til umræðu á fundi skóla-
nefndarinnar 2. febr. 1956: „Rætt var um aukna kennslu við skólann.
Var samþykkt að kanna hvort lögin um kennsluprestaköll gætu komið
að gagni í þeim efnum. Einnig var samþykkt að komast eftir að hve
miklu leyti ríkissjóður annaðist greiðslu á launum kennara sem bætt
væri við skóla sem ekki hefðu fleiri börn en hér eru. Ennfremur hvort
ríkið tæki hlutfallslega sama þátt í launum þess kennara, sem nú starf-
ar, ef skólatíminn væri lengdur upp í sjö mánuði, þannig að bætt væri
við að haustinu mánaðarkennslu fyrir yngstu börnin.“ I skólahalds-
skýrslu fyrir þetta skólaár kemur fram að skólinn, sem hafði mörg ár á
undan staðið í 6 mánuði er nú einum mánuði lengri og er svo (þó bara 6
mánuðir hjá unglingum) fram til 1969, en þá lengist tíminn um 1 mánuð