Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Blaðsíða 120
116
MÚLAÞING
líkama mannsins, myndir af mannkynsflokkum, myndir af alidýrum,
segulstál, glerstöng, etonesstöng, hyllemargskúlur tvær (?), þrístrent
gler og stækkunargler o. fl. Síðan hafa ýmis tæki og allskonar prentað
efni smám saman verið keypt skv. kröfum tímans (og kennarans). Þeg-
ar ég hóf störf við skólann 1968 var hann fremur fátæklega búinn, en í
dag má segja, að ástandið hvað þetta varðar sé mjög gott.
Z.
Félagslíf
Fátt er hægt að segja um félagslífið á fyrstu árum skólans. Telja verður
að það hafi verið frekar fábreytilegt fram undir upphaf fastaskólans og
farið eftir áhuga hvers kennara um sig — ekki verið skipulagt á neinn
hátt — og farið mest fram á sjálfum skólatímanum. Áður er aðeins vikið
að gönguferðum, sem nemendur fóru með kennurum sínum og einnig
getið um leiki ýmsa í frímínútum. Uppfærsla leikþátta og söngur var
annað slagið upp úr 1940 og skal hins helzta fyrstu árin getið hér.
Um 1943 sýndu flestir nemendur í „eldri deild“ 2 leikþætti. Sýningar
urðu tvær. Ekki var staðið að þessu í fjáröflunarskyni, og kostaði því
ekkert inn á sýningar þessar. (F. S.).
Uml950 æfðu elztu börnin upp leikþáttinn „Yfirheyrslan á Urðar-
felli“ og urðu margar sýningar á honum, en auk þess var skemmt með
söng og gítarundirleik. Hópurinn, sem stóð að þessu, nefndi sig „Kátir
krakkar“ og fengu þau að athafna sig í skólahúsinu að afloknum
kennsludegi. Nutu þau aðstoðar Helga Erlendssonar á Vengi og Björg-
ólfs Sveinssonar í Ártúni, en hann málaði leiktjöld. Selt var inn á þessar
skemmtanir og stóð til að fara í ferðalag, en úr því varð ekki. Liggur
ekki ljóst fyrir hvað varð um peninga þá, sem söfnuðust á þennan hátt.
(G. F.).
1 febrúar 1954 mun hafa verið æft upp leikrit og sýnt tvisvar sinnum.
Voru það elztu börnin, sem stóðu að því, en þau munu lítillega hafa
notið aðstoðar Björns Stefánssonar, er þá var formaður skólanefndar,
og Þorbjargar Einarsdóttur konu hans. Var það þó aðallega fólgið í því
að koma æfingum af stað. Eigi mun hafa verið selt inn á sýningar
þessar. (S. J.).
Guðríður Friðgeirsdóttir setti upp sýningu með eldri nemendum skól-
ans árið 1959. Voru það ýmsir leikþættir og söngur, sem á boðstólum
voru. Urðu sýningar nokkrar. Minnist ég þess að við börnin höfðum
mikla ánægju af þessari starfsemi.