Skagfirðingabók - 01.01.2014, Side 27
ÆVIMINNINGAR
27
áhugasöm. Mér leiddist ekki að kenna,
en hafði mikið óyndi á Kvíabekk. Þar var
miklu síðra en ég hafði vanist í sveit, bæði
hús og fólk. Þetta óyndi mitt leiddi til þess,
að ég var öllum stundum niðri í Horni,
en þar var dóttir Páls, Eva, jafngömul mér
og tókst með okkur góð vinátta. Þarna í
kauptúninu voru stundum samkomur,
sem ég fór á. Svo var ég alltaf velkomin á
heimili Páls, sem var mjög skemmtilegt,
börnin mörg og hálfvaxin. Eva var elst.
Við fórum oft á skíði og skauta saman. Það
var mikið spilað og sungið á þessu heimili.
Eva spilaði ágætlega og söng vel. Kona
Páls, Svanhildur Jörundsdóttir frá Hrísey,
var sérstaklega myndarleg húsmóðir og
hafði góða stjórn á heimilinu og sínum
mörgu börnum. Við Eva fórum nú að tala
um að fara í Kvennaskólann næsta vetur.
Hún var sama sinnis með það og ég. Við
sóttum um skólann og fengum inngöngu.
Við Jón skrifuðumst á þennan vetur.
Það voru engin ástarbréf, bara að láta
vita um líðan sína. Jón sagðist hafa boðið
tveimur dömum á skólaballið. Það voru
frændkonur hans, Dýrleif og Þorbjörg,
dætur séra Árna á Skútustöðum. Séra
Gunnar Benediktsson skrifaði seinna
skemmtilega um þetta ball, en Jón fékk
hann til að vera herra annarrar dömunnar.
Mér fannst veturinn aldrei ætla að líða. Ég
hugsaði mikið til Jóns og saknaði hans.
Hann var nú kominn í Læknaskólann
og piltar úr Háskólanum voru mjög
eftirsóttir af stúlkum. Mér fór nú að detta
í hug, að ef til vill væri ég búin að tapa
honum fyrir fullt og allt, en það vildi ég
ekki. Ég vissi sem sé nú, hvað ég vildi
fyrir framtíðina, og hélt að þarna hefði
ég kannski misst af tækifæri til að eignast
góðan og traustan eiginmann.
Páll borgaði mér kennarakaupið um
vorið, og mér þóttu það miklir peningar,
af því að það voru fyrstu launin, sem ég
vann fyrir. Ég var ekki eyðslusöm, en hafði
þó gaman af að veita mér fín föt, og þessa
peninga gat ég notað til þess. Ég vissi að
Guðmundur Loftsson héldi áfram að
greiða uppihald mitt í Reykjavík. Ég held
að pabbi hafi látið móðurarf minn ganga
í þennan kostnað. Það var aldrei talað um
það, en það var heldur aldrei talað um, að
ég eyddi miklu þessi skólaár mín.
Ég átti góðan frænda í Reykjavík, Jón
Gíslason verslunarmann. Hann átti Ásdísi
Jónsdóttur, sem kölluð var Ásdís fagra,
enda mikil glæsikona í útliti og allri gerð.
Heimili þeirra var á Laugavegi 20. Ég kom
oft til þeirra þegar ég bjó í Lækjargötunni.
Þetta var sérlega myndarlegt heimili,
glaðvært og fínt. Guðjón bryti, bróðir
Ásdísar, kom þar með hljóðfæri og spilaði
og viðhafði gleðskap á sunnudögum.
Ég skrifaði Jóni frænda mínum og bað
hann að taka mig í fæði og húsnæði um
veturinn. Ég vissi að þarna var herbergi
uppi, sem ein stúlka hafði, svo það gat
verið pláss fyrir mig að sofa. Ég fékk svar
frá Jóni, að það fengist og ég mætti koma
þangað um haustið. Mér þótti mjög vænt
um þetta. Þarna voru engir kostgangarar,
svo þetta var fyrst og fremst gott heimili.
Eva fékk líka gott pláss, ekki langt frá mér,
og við ákváðum að lesa saman og hjálpa
hvor annarri og ganga saman í skólann.
Hún hafði ekki verið áður í Reykjavík,
svo ég rataði betur og gat á ýmsan hátt
leiðbeint henni, þegar þangað kom. Við
urðum samferða á skipi suður um haustið.
Ég hafði ekki skrifað Jóni Árnasyni, að
ég kæmi suður, og var því hálf kvíðafull
að hitta hann og vissi ekki, hvort hann
fagnaði því eða væri kannski alveg sama
eða enn verra. Þegar við Eva höfðum