Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 164
164
SÆBJÖRG FREYJA GÍSLADÓTTIR
[Ó]SKILGETNAR
DÆTUR ÞJÓÐARANDANS
ÉG MAN ÞEGAR Íslenskar þjóðsögur og
ævintýri komu fyrst inn á heimili mitt.
Pabbi fékk safnið í þrítugsafmælisgjöf
og ég held að enginn á heimilinu hafi
opnað þessar bækur jafn oft og ég.
Þangað til ég byrjaði að læra þjóðfræði
í Háskóla Íslands hafði mér aftur á móti
ekki komið til hugar að velta fyrir mér,
hvaðan af landinu þessar þjóðsögur væru
í raun og veru upprunnar. Árið 2011,
þegar ég stóð sjálf á þrítugu, fannst mér
kominn ágætis tími til að kanna þann
uppruna lítillega.
Greinin sem hér fer á eftir fjallar um
það fólk sem Jón Árnason fékk til liðs við
sig um miðja 19. öldina við að skrásetja og
safna þjóðsögum og þjóðlegum fróðleik. Í
fyrstu er sagt stuttlega frá uppruna Jóns og
tilurð þjóðsagnasafnsins. Þar á eftir fylgir
umfjöllun og tafla yfir þá skrásetjara sem
hjálpuðu honum við verkið og eru nöfn
þeirra sett upp í töflu og greint frá búsetu
hvers og eins þegar söfnunin átti sér stað.
Þjóðsagnasafnið átti að endurspegla rödd
þjóðarinnar allrar, en skrásetjarar voru
einkum yfirstéttarmenn þess tíma. Þess
vegna kemur einnig kafli þar sem skýrt
er frá uppruna heimildamannanna sem
eiga sögur í safninu, og fjöldi þeirra í
hverri sýslu tekinn saman. Niðurstöður
þessa voru nokkuð óvæntar, en flestir
heimildamennirnir virðast hafa verið úr
Skagafjarðarsýslu. Fjöldi þeirra segir þó
ekki allt um fjölda sagnanna frá þessu
svæði, sem reyndist ekki vera tiltölulega
mikill. Í lokakaflanum eru svo kynntar
ýmsar tilgátur til að útskýra þennan
mikla fjölda heimildamanna á móti fáum
sögnum frá flestum þeirra.
Um Jón Árnason
og söfnun þjóðsagna
ÞAÐ ÞJÓÐSAGNASAFN sem flestir Íslend-
ingar þekkja og hafa einhver kynni af,
er án efa safnið hans Jóns Árnasonar frá
Hofi á Skagaströnd, Íslenzkar þjóðsögur
og ævintýri. Jón fæddist árið 1819 og var
sonur prestshjónanna Árna Illugasonar
og Steinunnar Ólafsdóttur. Hann fékk
ungur mikinn áhuga á sögum hverskonar
eins og hann segir sjálfur í ævisögubroti
sínu:
Á 5. – 7. ári held eg hafi heyrt fyrst flestar
þær þjóðsögur, sem frá minni hendi
beinlínis standa í safninu, enda er sú saga
til þess, að enginn, sem kom að Hofi af
almúgamönnum og var þar nætursakir,
átti frið fyrir mér frá því að segja mér