Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 77
AF ÞÓRUNNI JÓNSDÓTTUR OG HRAFNI BRANDSSYNI
77
þar gjarnan vilja sjá ágreining þeirra
Þórunnar og Pálssona, Bjarna, Erlends
og Jóns, niðursettan: „Ég vil eftir minni
fátækt og formegan gjarna viðleita við
þá heiðurskvinnu Þórunni að það mætti
niðursetjast allt sem eigi hæfir að vera á
milli kristinna manna sem er heift, reiði
og haturs hugarmóðs og hún mætti fá
fyrir sitt andvirði svo henni líkaði.“72 Gera
má ráð fyrir að Guðbrandur hafi miklað
fyrir sér heiftrækni Þórunnar. Þrátt fyrir
skyldleika þeirra og viðskiptasamband,
voru þau á öndverðum meiði í trúarlegu
tilliti og Guðbrandur notaði hvert
tækifæri til að tukta frænku sína.
Hver var hústrú Þórunn?
ÚR SAMTÍMAHEIMILDUM má lesa að and-
stæðurnar toguðust á í fari Þórunnar á
Grund. Hún var annars vegar gjöful og
lét sér annt um velferð annarra. Hún vakti
yfir fjölskyldunni og hagsmunum hennar
til æviloka, ekki beinlínis í eigin þágu því
hún var barnlaus. Aðrir hlutu að njóta góðs
af. Á hinn bóginn var Þórunn hörð í horn
að taka. Það kemur fram í viðskiptum
hennar við Margréti Erlendsdóttur, Guð-
brand Hólabiskup og fleiri, að hún var
beinlínis umtalsill og lét sitthvað miður
fallegt flakka um samtímamenn sína.
Á efri árum var hún svarri í skapi, að
minnsta kosti við þá bróðursyni sína, en
þeir gáfu tilefni til. Þráhyggju verður vart
í fari Þórunnar, einkum þegar deilur um
einstakar jarðir voru annars vegar. Hálfrar
aldar deila um Veturliðastaði í Fnjóskadal
segir sína sögu. Hún gaf síðan jörðina að
málinu unnu. Þannig voru andhverfurnar
í lífi hennar. Þórunn lifði stormasömu
lífi á viðsjárverðum tímum. Hún missti
eiginmenn og einkabarn sitt. Hún lifði
atburðina í Skálholti árið 1550 sem hljóta
að hafa verið áhrifamiklir, svo lengi hefur
minning þeirra lifað með íslenskri þjóð.
Stórir atburðir og áföll setja sitt mark á
menn og svo hefur verið í tilviki Þórunnar.
Enginn vafi er á að stórfjölskyldan lék
mikið hlutverk í lífi Þórunnar á Grund.
Hún hélt alla tíð sterkum tengslum við
fjölskyldu sína, einkum þann hluta
hennar sem næst bjó. Faðir hennar var
greinilega forsjármaður hennar meðan
hans naut við og sennilega Ari bróðir
hennar að einhverju leyti líka. Við
Sigurð bróður sinn á Grenjaðarstað
hafði hún margvísleg samskipti, bæði á
sviði fjölskyldu- og fjármála. Bræðrabörn
hennar nutu góðs af umhyggju
Þórunnar, hún breiddi sig yfir Helgu
Aradóttur og stóð við hlið hennar meðan
barist var við Þorleif á Möðruvöllum
vegna giftingar Helgu og Staðarhóls-
Páls. Synir séra Björns, Magnús og Jón,
voru líka undir verndarvæng Þórunnar.
Þeir voru erfingjar hennar en hræddir
við eyðslusemi og voru raunar fullfljótir
á sér að ætla að hrifsa sínar sneiðar af
kökunni og þá kastaðist í kekki. Þarna
hefur örugglega skipt miklu máli að
Þórunn var barnlaus og þurfti því ekki að
huga að hagsmunum eigin barna. Hún
gat því leyft sér að hygla frændbörnum
sínum og veita þeim umhyggju. Á hinn
bóginn lét hún ekki vaða yfir sig og sýndi
klærnar ef henni fannst að sér gengið,
jafnvel þótt skyldmenni ættu í hlut eins
og erfðamálin sýna og sanna. Bréf sýnir
að Þórunn hefur hugsað um móður sína
aldraða, fær að vísu nokkuð fyrir sinn
72 Bréfabók Guðbrands byskups Þorlákssonar, bls. 330–331.