Skagfirðingabók - 01.01.2014, Side 131
MINNINGABROT FRÁ BERNSKUTÍÐ
131
ólíklegrar iðju og þess að fara að spreyta
sig við skrúðgarðyrkju – enda er ég ekki
viss um að margir hefðu bara skilið það
orð. Auðvitað voru flestar lóðir þarna
ógirtar og búpeningur ráfaði hvarvetna á
milli húsa. Hestar, kýr og kindur, geitur
og hænsni, sem engu eirði. Á stöku stað
voru afgirtar garðholur með kartöflum
og rófum, en fáu öðru, nema kannski
nokkrum plöntum af ránfangi og venus-
vagni. Ég minnist þess ekki að hafa
séð trjáplöntur nema við örfá hús, sem
telja mætti á fingrum annarrar handar.
Undantekningar voru Gróðrarstöðin og
Læknisgarðurinn.
Í Gróðrarstöðinni, sem skýldi sér uppi
undir Nöfunum ofan við símstöðina,
réði Tóta í Stöðinni, sem líka var Tóta á
Stöðinni, þ.e.a.s. símstöðinni, því Þórunn
Sigurðardóttir var ráðskona Péturs Sig-
hvats símstöðvarstjóra. A.m.k. réði hún
húsum eldhúsdyramegin, og tók á móti
okkur smástrákum þegar við þurftum
að ná í Pétur til að vita hvort hann ætti
ekki skrúfbolta handa okkur þegar mikið
lá við og við þurftum að festa hjól undir
kassabílana okkar. Oftast gat Pétur með
ljúfu geði leyst vanda okkar og jafnvel
gefið einhver góð ráð varðandi smíðina í
kaupbæti. Við strákarnir hjálpuðum henni
stundum við sitt af hverju, svo sem að flytja
áburð, og fengum að launum, einkum
þegar hausta tók, að tína upp í okkur rifsber
– eða gulrófu úr garðinum til að naga.
Þarna uxu nokkrar hríslur, reynir, birki og
víðir, minnir mig, auk rifsberjarunnanna.
Garður Jónasar Kristjánssonar læknis,
„Læknisgarðurinn“ eins og hann var alltaf
kallaður (þó mig gruni að læknisfrúin,
frú Hansína Benediktsdóttir, hafi átt sinn
þátt í garðinum þeim), var eiginlega eini
verulegi skrúðgarðurinn sem ég minnist
á Króknum í æsku minni. Þetta var stór
garður, þar sem auk matjurta var töluvert
Læknishúsið Suðurgata 1 í „Læknisgarðinum“. Sauðáin rennur meðfram garðveggnum.
Eigandi myndar: HSk.