Skagfirðingabók - 01.01.2014, Qupperneq 34
SKAGFIRÐINGABÓK
34
Læknaskólann. Þegar Sigurður sá, að
búskapurinn yrði ekki ævistarf Jóns, seldi
hann jörðina til að kosta hann að svo
miklu leyti, sem það hrykki. Sigurður
fluttist þá að Hofsstöðum í leigujarð-
næði, en þangað heimsóttum við þau
hjónin í brúðkaupsferð okkar.
Björg systir stundaði nú ljósmóðurstörf
í Sléttuhlíð. Fyrsta konan sem hún sat yfir,
var stjúpa okkar, sem átti sitt þriðja barn í
febrúar 1919. Það var ekki sérlega mikið
að gera sem ljósmóðir í þessari sveit, en
Björg var mjög heppin með sín störf og
átti eftir að nota þessa menntun sína vel
síðar á ævinni.
Við Jón hugsuðum nú til að búa
saman í Reykjavík næsta vetur. Við
töldum það jafnvel hagstæðara efnalega,
en þá voru húsnæðisvandræðin, sem voru
alveg sérlega mikil á þessum tímum, eins
og jafnan fyrr og síðar. Jón kom heim um
vorið að loknu prófi og hafði veika von
um húsnæði næsta vetur. Við ætluðum að
minnsta kosti að treysta því, að úr rættist,
ef þetta brygðist. Við fórum í september,
en áður var dóttir okkar skírð í Fellskirkju
nafni fóstru Jóns, Anna Jónsdóttir. Þegar
suður kom var ekkert húsnæði fáanlegt,
því að þetta, sem Jón hafði í huga, var
þá búið að leigja öðrum. Þetta voru þau
mestu vandræði, sem við höfðum orðið
fyrir til þessa. Við vorum til skiptis hjá
góðkunningjum, en náttúrulega vildi
enginn sitja uppi með heila fjölskyldu
vetrarlangt.
Mér datt þá ráð í hug. Ég frétti að
Jón Þorláksson væri að byggja hús á
Baldursgötu. Það voru tvö hús með
burstasniði, nokkurskonar stæling á
gömlu bæjunum, sem Jón vildi prófa
að byggja. Þau voru ekki fullgerð, en ég
vildi vita meira um þessi hús og fór að
finna Margréti, ömmusystur mína. Ég
spurði þá Jón eftir þessum húsum og
tjáði honum vandræði okkar. Hann tók
þessu mjög vel, en sagði, að það yrði ekki
neitt íbúðarhæft í þessum húsum fyrr en í
nóvember. Ef við fengjum ekkert þangað
til, skyldi hann leigja okkur, en annars
ætlaði hann að selja húsin, hann hefði
byggt þau til þess. Þetta var langur tími
fyrir mig, tveir mánuðir með barn, en
þetta bætti þó úr algeru vonleysi.
Jón var eins og fyrr á gangi í húsnæðis-
leit, þegar hann mætti Þorgrími lækni í
Keflavík á förnum vegi og þeir tóku tal
saman. Jón sagði honum vandræði sín
með mig og barnið. Þorgrímur, sem var
hreinasta perla á alla lund, sagði bara: „Ég
skal spyrja Jóhönnu mína, hvort hún vilji
ekki taka konuna og barnið meðan þið
bíðið eftir húsinu hjá Jóni Þorlákssyni.“
Það stóð ekki á svarinu hjá Jóhönnu, að
ég væri velkomin þangað með barnið,
sem var þá á öðru ári. Jón fór nú með
okkur til Keflavíkur, og þvílíkar viðtökur
hjá frú Jóhönnu! Þær eru ógleymanlegar
og öll vera okkar þar frábær á allan hátt.
Jón hélt áfram að lesa í Reykjavík. Hann
las á Landsbókasafninu við Hverfisgötu, en
Læknaskólinn var þá í Alþingishúsinu og
verkleg kennsla á Landakotsspítala. Hann
svaf og borðaði hjá Sigurði á Ysta-felli eða á
hans vegum þennan tíma. Það var geysilega
mikið að gera í náminu seinni hluta
læknisfræðinnar. Prófessor Guðmundur
Magnússon yfirlæknir á Landakotsspítala
var ágætis kennari, en mjög strangur.
Læknanemar voru fáir, en þeir voru látnir
læra mikið, því að þeir fóru allir út í sveitir
sem héraðslæknar að námi loknu. Það var
ekki um sérgreinar að ræða. Þeir þurftu
því að vera færir í allt, sem mannskepnuna
hrjáir, bæði á líkama og sál.