Hugur - 01.01.2014, Qupperneq 150
150 Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson
umhyggju enda rísi þær „upp úr umhyggjusamri iðju og leika því stórt hlutverk í
umhyggjusiðfræði, sé hún skilin rétt“.42
Hér alls engin tilraun á ferð til þess að smætta réttlætishugtakið niður í um-
hyggjuhugtakið. Held ítrekar að við þurfum að halda hugtökunum tveimur að-
greindum, þar eð réttlætishugtakið getur tekið á ýmsum þáttum sem umhyggjan
getur kannski ekki gert.43 Við getum samt sem áður litið svo á að krafan um
réttlæti spretti upp úr samböndum sem einkennist af umhyggjusemi. Ef ég á
tvö börn og sýni öðru þeirra meiri umhyggju en hinu þá er ég ekki raunverulega
umhyggjusamur. Það að vera umhyggjusöm manneskja krefst þess af mér að ég
sé einnig sanngjarn. Sanngirnin sprettur upp af næmni minni og skilningi á mis-
munandi þörfum barna minna og hvernig megi uppfylla þær.
Hér birtir umhyggjusiðfræðin nýja mynd af erkitýpu siðaverunnar og stillir
henni upp sem góða vininum eða skilningsríka foreldrinu andspænis t.d. mynd-
inni af hinum sanngjarna dómara. Því þar sem réttlætiskenningarnar sjá fjöl-
skylduna fyrir sér sem holdgervingu ójafnræðis, getum við séð í breytni góðra
og umhyggjusamra foreldra hvar fullkomin birtingarmynd sanngirni og réttlætis
lítur dagsins ljós. Það gera þeir þvert á misjafnar aðstæður barna sinna og með
næmni fyrir tilfinningum þeirra og þörfum. Ekki með því að láta eins og enginn
munur sé á milli barnanna, heldur með því að taka hann með í reikninginn. Á
sambærilegan hátt ætti réttlæti úti í hinu víðara samfélagi að virka.
Okkur er orðið of tamt að líta á siðferði og þar með mannleg samskipti á
opinberum vettvangi sem eitthvað sem eigi sér stað á milli ókunnugra og óháðra
einstaklinga en gleymum hversu lifandi og samtvinnuð þessi samskipti og við sjálf
erum í líf hvers annars. Siðfræði sem ætlar að taka tillit til þess hvernig við lifum,
í hvernig samböndum við erum, verður að horfa til tengsla, ekki aðeins til afstöðu
einstaklinga eða niðurstaðna af einstökum ákvörðunum. Hún verður að geta met-
ið þessi tengsl: hver eru slæm, hver eru góð, hver við eigum að rækta og hvernig
við eigum að gera það. Til þess þurfum við siðfræði þar sem þungamiðjan hvílir á
umhyggju, skilningi, næmni og ábyrgð okkar á öðrum. Við þurfum siðfræði sem
er reist á raunsæjum mannskilningi. Ekki á skilningi á mannverum sem birtast
eins og jafnir, frjálsir samningsaðilar, heldur á mannverum sem eru í mismunandi
42 Bubeck 1995: 11, sótt til Held 2006: 16, skáletrun mín. Sjá líka Held 2006: 71.
43 Réttarorðræðan hefur t.a.m. augljóslega verið mikið haldreipi fyrir minnihlutahópa. Skýrustu
dæmin um það eru eflaust réttindabarátta svarts fólks í Bandaríkjunum og kvenna í Vesturheimi.
Það sem Held vill hins vegar benda á er að þó að réttlætisnálgunin sé oft mjög gagnleg þá þýði
það ekki að við getum þar með beitt henni á allt siðferði og alla pólitík. Réttlætiskenningarnar
hafa mótast á hinu opinbera sviði þar sem þær taka til samskipta milli ókunnugra og ótengdra
einstaklinga. Held bendir á hvernig þær alhæfa um allt siðferði út frá hugmyndum okkar um
samskipti einstaklinga á markaðnum eða á sviði ríkisins og er ætlað að fást við ákvarðanir og
siðferðisleg vandamál með nálgunum sem eru í anda löggjafarvalds eða dómara, samninga/sátt-
mála og jafnvel verslunar og vöruskipta. Sjá Held 2006: 25. Hér sjáum við að Held telur að réttlæti
og umhyggja geti verið í samhljómi hvort við annað og eigi að stilla hvort annað af. Aðrir hafa lagt
til svipaða nálgun, t.d. Marilyn Friedman og Annette Baier. Michael Slote er hins vegar þeirrar
skoðunar að slíkt sé ekki alltaf raunin og að stundum geri réttlætið til okkar kröfur sem stangast
á við góða umhyggju. Í þessum efnum tekur hann dæmi um tjáningarfrelsið og hatursorðræðu.
Þvert á það sem við eigum að venjast leggur hann til að í slíkum aðstæðum sé oftast ástæða til
þess að láta umhyggjusjónarmið hafa forgang yfir réttlætissjónarmið. Sjá Slote 2012, sérstaklega
5. kafla, Friedman 1993 og Baier 1995.
Hugur 2014-5.indd 150 19/01/2015 15:09:37