Hugur - 01.01.2014, Qupperneq 159
Réttlæti: Stofnanir og verðskuldun 159
hugmyndirnar tvær eru hins vegar beinlínis afleiðing af því hvernig stofnanir
samfélagsins eru skipulagðar.
Verðleikakenning um réttlæti, eins og sú sem Þorsteinn talar fyrir og Tea Logar
segir að sé næsta hversdagsleg, gerir ráð fyrir að réttlæti ráðist af siðferðilegri
verðskuldun, þ.e. verðskuldun sem byggist á siðferðilegu mati. Og það er einmitt
þessi hugmynd sem Rawls segir að geti ekki verið hluti af kenningu um félagslegt
réttlæti. Ástæðan fyrir höfnun Rawls er fremur einföld, annars vegar staðreyndin
um sanngjarna fjölhyggju og hins vegar sú hugmynd hans að fólk verðskuldi ekki
verðleika sína. Í framsetningu Rawls er meiri þungi á rökunum sem spretta af
staðreyndinni um sanngjarna fjölhyggju. Kenning Rawls um pólitískt réttlæti er
beinlínis tilraun til að skýra forsendur þess að skilgreina megi verðskuldun sem er
óháð siðferðilegu mati á verðleikum (þ.e. skilningur tvö og þrjú), enda sé ekki von
til þess að neitt samkomulag muni nást um hvað fólk verðskuldi í siðferðilegum
skilningi (skilningur eitt). Slíkt samkomulag verði einfaldlega að byggjast á sam-
komulagi um forsendur félagslegrar samvinnu sem, í kenningu Rawls, verður til
undir fávísisfeldi til að tryggja fullkomið hlutleysi.
Látum verðleikana sjálfa bíða um sinn en hugum nánar að verðskuldun al-
mennt. Fólk á jafnan skilið eitt frekar en annað sem eitthvað. Þetta á augljóslega
við um skilning tvö og þrjú hjá Rawls – þ.e. verðskuldun sem réttmætar væntingar
og verðskuldun samkvæmt reglum samfélagsins – en þetta á einnig við um skiln-
ing eitt, þ.e. siðferðilega verðskuldun. Sem kennari verðskulda ég eitt, sem for-
eldri verðskulda ég annað, og sem manneskja verðskulda ég kannski eitthvað enn
annað. Jafnvel þótt verðskuldun mín sem kennara sé að hluta til bundin reglum
samfélagsins (verðskuldun í skilningi þrjú) og að hluta til bundin réttmætum
væntingum mínum (verðskuldun í skilningi tvö) verður spurningunni um það
hvort ég verðskuldi virðingu nemenda minna, eða samfélagsins alls, ekki svarað
einfaldlega með vísun til skilgreindra hlutverka kennarastarfsins. Hér koma einn-
ig til siðferðilegir þættir enda er ég einnig manneskja, eins og nemendur mínir
líka, og hlutverk mitt sem kennara er öðrum þræði að rækta mennsku nemenda
sem ég ber að hluta til ábyrgð á. Sú staðreynd hlýtur að vera mikilvægari en hvaða
önnur staðreynd um tilfallandi og tímabundin hlutverk sem ég tek að mér. Ýmis
önnur hlutverk sem fólk er í, t.d. foreldrahlutverk eða systkinahlutverk, eru ekki
nema að óverulegu leyti skilgreind með reglum samfélagsins en samt sem áður
verðskuldar fólk ýmislegt, bæði súrt og sætt, sem foreldrar eða systkini.
Kannski getum við sagt að mannréttindi varði það sem fólk verðskuldi einfald-
lega sem manneskjur, burtséð frá öðrum eiginleikum. Borgaraleg réttindi fjalla
m.a. um það sem fólk verðskuldar sem borgarar. Mikilvægi ólíkra hlutverka fyrir
mat á því hvað einhver verðskuldar verður kannski skýrast þegar um yfirsjónir
eða vanrækslu er að ræða. Barn á skilið að njóta frelsis og yfirleitt bera foreldrar
ríka ábyrgð á að tryggja það. Þess vegna kann foreldri sem vanrækir að opna dyr
fyrir barni sínu (hvort heldur í eiginlegri eða yfirfærðri merkingu) að vera sekt
um að skerða frelsi barnsins síns. Sökin getur ýmist verið siðferðileg eða lagaleg.
Þótt annað fólk hafi ekki heldur opnað dyrnar, jafnvel fólk sem átti þess kost, þá
hefur það ekki gerst sekt um sambærilega vanrækslu. Aðeins foreldrið skerti frelsi
Hugur 2014-5.indd 159 19/01/2015 15:09:37