Orð og tunga - 2021, Blaðsíða 59
48 Orð og tunga
aðgreindum eftir viðtakanda. Alls var því unnið með sjö skjöl fyrir
hvora málbreytu (sbr. Töflu 1), óviðkomandi dæmi voru grisjuð frá og
þau sem eftir stóðu skoðuð og greind bæði megindlega og eigindlega.
Gögnin eru of takmörkuð til að standa undir tölfræðilega marktækum
niðurstöðum, sérstaklega þegar búið er að greina þau í sundur eftir
bréfriturum, viðtakendum og jafnvel ritunartíma. Af þeim sökum
var ekki farið út í flókna tölfræðilega útreikninga. Niðurstöðurnar
eru birtar sem rauntölur um dæmafjölda og einnig sem einfaldar
hlutfallstölur til að draga fram meginlínur í gögnunum og auðvelda
samanburð. Þær verður að líta á sem vísbendingar um líkindi eða
innbyrðis mun milli bréfa eða bréfritara og fara mjög gætilega í að
draga almennar ályktanir af þeim.
Sögnin hafa er algeng í textunum og dæmi um nútíðarmyndir hennar
í eintölu framsöguhætti því nægilega mörg til að gefa hugmynd um
hvort og þá hvaða tilbrigði koma fram í skrifum bréfritaranna. Farið
er með tilbrigðin sem breytur, ýmist einstakar beygingarmyndir (hef
: hefi í 1. p. og hefur : hefir í 2./3. p.) eða munstrin í heild (hef/hefur
: hefi/hefir). Dreifingin er sýnd með hlutfallslegri tíðni afbrigðanna.
Það þýðir að ef fundist hafa tíu dæmi um 1. persónu sagnarinnar í
bréfum tiltekins bréfritara og þrjú þeirra eru um myndina hefi þá er
hlutfallsleg tíðni hennar í þeim 30%.
Hitt atriðið sem skoðað var, notkun orða af erlendum uppruna og
umfang þeirra í bréfunum, verður að nálgast með öðrum hætti eins
og áður segir (sbr. 3.3.2). Hér er farin sú leið að meta umfang þeirra
í heild með því að reikna út hversu stór hluti dæmi um slík orð er af
heildarfjölda lesmálsorða í bréfunum. Þessi aðferð á sér fyrirmyndir
í eldri rannsóknum á umfangi aðkomuorða (Selback og Sandøy
(ritstj.) 2007:22−23, Ásta Svavarsdóttir 2017:60−67) og hún dugir vel
við samanburð milli bréfritara. Það var ekki vandalaust að afmarka
orðin og þótt leitast hafi verið við að fylgja ákveðnum viðmiðum, t.d.
um aldur orðanna í íslensku og formleg einkenni þeirra, var valið
samt talsvert huglægt. Reynt var að gæta innra samræmis og það ætti
því ekki að hafa áhrif á heildarmyndina þótt einstök tilvik kynnu að
vera umdeilanleg. Eitt álitamál er vert að nefna sérstaklega: Erlend
heiti af ýmsu tagi (mannanöfn, staðarnöfn, bókartitlar o.fl.) koma oft
fyrir í bréfunum og þau voru afmörkuð og talin eins og önnur orð
af erlendum uppruna. Þeim var hins vegar sleppt í niðurstöðunum
sem birtar eru hér á eftir til samræmis við það sem gert hefur
verið í fyrri rannsóknum (Ásta Svavarsdóttir 2017) svo þær yrðu
samanburðarhæfar við niðurstöður þeirra. Við mat á aldri orða eða
tunga_23.indb 48 16.06.2021 17:06:48