Orð og tunga - 2021, Blaðsíða 67
56 Orð og tunga
vegar virðist notkun myndanna hefi og hefir geta verið leifar af eldra
málstigi og á heildina litið sýnist útbreiðsla þeirra hafa verið meiri á
Norðurlandi en suðvestanlands og dreifingin því að einhverju leyti
landshlutabundin. Það gæti skýrt veruleg tilbrigði í bréfum Sigurjónu
sem ól mestallan sinn aldur í Eyjafirði, öfugt við hálfsystkini hennar
— tilbrigðin voru þá í hennar tilviki sprottin af því máli sem hún ólst
upp við fremur en tilburðum til að fylgja málstaðli.
4.2 Notkun orða af erlendum uppruna
Meðal þess sem mest var amast við í málumræðu á 19. öld voru atriði
sem talið var að rekja mætti til erlendra — ekki síst danskra — áhrifa.
Þar voru aðkomuorð fyrirferðarmest og jafnvel má halda því fram að
andstaða gegn þeim hafi orðið veigamikill þáttur þess málstaðals sem
var að mótast á 19. öld og í byrjun þeirrar tuttugustu. Samhliða var
sú hefð fest í sessi að leitast við að þýða erlend hugtök eða smíða ný
orð af innlendum stofni í stað þess að nota orð af erlendum uppruna,
meira eða minna aðlöguð að íslenskum rithætti og beygingum. Þetta
hefur haft áhrif á íslenska málnotkun, sérstaklega á opinberum vett
vangi, fram til þessa dags (sjá t.d. Ara Pál Kristinsson 2017:134−136,
142−144). Hugmyndir manna á 19. öld birtast t.d. í blaðagrein eftir
einn bréfritaranna sem hér eru í forgrunni, þá háskólastúdent í Kaup
mannahöfn:
Á Íslandi eða öllu heldur í Reykjavík hefir in síðustu ár verið
að myndast ný stefna í ritmáli voru [...] Þessi stefna kemur
fram í þremur myndum, sem allar eru þó eitt: annaðhvort
svo, að menn eru farnir að venja sig á að hafa útlenzk orð og
orðatiltæki, eða í annan stað að þýða útlenzk orð orðrjett og
enda stafrjett, í stað þess að hugsa hugmyndirnar á íslenzku,
og mynda orðin þar eftir [...] eða í þriðja stað að hafa útlenzkt
orðalag og orðaskipun.
(Finnur Jónsson 1882:74)
Með orðunum „að þýða útlenzk orð orðrjett og enda stafrjett“ virðist
Finnur allt eins eiga við aðlögun orða af erlendum uppruna og
eiginlegar tökuþýðingar því meðal dæma sem hann nefnir um þessa
„stefnu“ eru t.d. stimpill, upplýsing, pólitík og spekulatiónir.
Í ljósi slíkra hugmynda er forvitnilegt að kanna umfang og eðli
orða af erlendum uppruna í málnotkun systkinahópsins. Fyrst verður
tunga_23.indb 56 16.06.2021 17:06:49