Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Side 39
41
Kenningasmiðir í leikjafræðum, samningafræðum og hagfræðingarnir sem
ég vinn með tala gjarnan um ógnaryfirburði (e. threat advantage).8 Þetta er
einföld hugmynd sem skýrir sig að mestu sjálf. Öllum hefur einhvern tím-
ann stafað ógn af einhverjum en sömuleiðis nýtt sér eigin yfirburði í öðrum
tilvikum. Svartir unglingar, Vítisenglar og íslamskir bókstafstrúarmenn
eru vanir því að vestrænt miðstéttarfólk sæmi þá ákveðinni yfirburðastöðu
af tómum bleyðuskap, sérstaklega háskólafólk, einkum úr hugvísindum,
en það kemur einnig til af líkum sem ónotalega auðvelt er að fá staðfestar.
Sá sem er óttalaus stendur betur að vígi en skræfan í allri keppni, þótt þeir
yfirburðir skipti litlu nema mótherjinn trúi á þetta hugrekki, en meðvitund
um eigin kjark gerir minna gagn.
Það er ógnandi þegar hótað er með berum orðum, til dæmis ef ég geri
þér ljóst að þú hafir verra af ef þú gerir ekki eins og ég segi. Stundum er
hótun óbein; ógnin liggur einfaldlega í loftinu vegna þess að það er ögr-
andi þegar lánið hefur leikið við fólk, eða það hefur til að bera hæfileika,
ef til vill var eitthvað „gefið í skyn“, eða, eins komið verður að síðar, að
einum getur staðið ógn af annmörkum annars. Með framansögðu hef ég
sýnt að hótun og hvaðeina sem ögrar fellur innan almennu hugmynd-
arinnar um hvað felur í sér ógn.9
8 Í umræðu sinni um siðferðilegt hlutleysi innan leikjafræða sagði Rawls, eins og
þekkt er: „sú ógn sem stafar af yfirburðastöðu eins er ekki grundvallarviðmið um
réttlæti“, John Rawls, Theory of Justice, Cambridge MA: Harvard University Press,
1971, bls. 134. Þessi setning er breytt en í fyrri útgáfu hljómaði hún svo: „hæpið
er að ætla að ógn sem stafar af yfirburðastöðu eins sé uppspretta sanngirnisvið-
miða“. John Rawls, „Justice as Fairness“, Philosophical Review 67(12)/1958, bls. 177.
Það virðist liggja í augum uppi að hafna eigi viðmiðum um réttlæti sem byggjast
á hugmyndum um að styrkur jafngildi rétti, ef það skilgreinir ógnaryfirburði.
Vandamálið verður flóknara þegar teknar eru með í reikninginn gáfur og hæfi-
leikar, sem almennt eru talin hreinni og dyggðugri, en eru engu að síður ógnandi
og gefa mönnum þannig yfirburði: andlegt atgervi, hæfni í íþróttaiðkun, eða hvers
konar færni sem menn hafa lagt hart að sér til þess að ná tökum á o.s.frv. Margt í
hinu daglega lífi − líkt og hver fær að halda á fjarstýringunni og hver fær sitt fram á
deildarfundi − gengur út frá því að ógnaryfirburðir, og þar með samningaviðræður,
séu hluti af mannlegum samskiptum og því ekki endilega ósiðlegir, þótt viss beit-
ing ógnaryfirburða sé að sjálfsögðu skilgreind sem svo. Líkt og fyrri daginn eru
þetta ekki einföld málefni og engin einföld svör til. Í amstri dagsins vonum við, í
einfeldni okkar, að þegar upp er staðið komi þetta allt út á eitt. Ég bý yfir færni og
hæfileikum sem gera það að verkum að ég stend betur að vígi á sumum sviðum, á
öðrum sviðum býrð þú yfir færni og hæfileikum sem taka mínum fram.
9 Athugasemd þýðenda: Þetta orðar Miller svo: „I am thus subsuming the domain
of the ‘threatening’ into a broader conception of threat.“ Umræða Millers miðast
við enska hugtakið „threat“. Í því felst hvort tveggja merkingin ógn og ógnun, sem
HAFT Í HóTUNUM