Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Page 151
127
á mikilvægt val varðandi friðhelgi einkalífs og hversu langt hann
gengur í að særa með texta sínum.21
Í ljósi þess að báðar greinarnar birtust eftir að bók Hallgríms kom út má
segja að þær spurningar sem Guðrún varpar fram beinist ekki aðeins að
höfundinum eða öðrum sem komu að útgáfu bókarinnar heldur einnig
að viðtakendum verksins. Hún birtir greinar sínar á opinberum vettvangi
til þess að lesendur bókarinnar viti af því ósætti sem ríkir milli fjölskyld-
unnar og höfundarins og beinir athygli að þeim yfirgangi sem henni þykir
Hallgrímur hafa sýnt. Hún vekur einnig athygli lesenda á að fjölskyldunni
þyki að hún hafi verið órétti beitt, og í raun gæti hver sem er orðið fyrir því
sem hún og fjölskylda hennar telur sig hafa mátt þola. En hvers vegna ætli
fjölskylda Brynhildar Georgíu hafi ákveðið að „sækja“ málið í fjölmiðlum
en ekki fyrir dómstólum?
Ekki hafa mörg mál komið fyrir dóm hér á landi er varða meiðyrði í
skáldskap. Krafist hefur verið lögbanns í fáeinum tilvikum og má þar nefna
tilraun til að hindra útvarpslestur á bók Indriða G. Þorsteinssonar, Þjófur í
paradís, árið 1975.22 Annað og nýrra mál er frá árinu 2007 þegar þrír ein-
staklingar stefndu Ríkisútvarpinu ohf. vegna sýningar á þætti í þáttaröð-
inni Sönn íslensk sakamál. Sá þáttur fjallaði um morð á föður og eiginmanni
stefnenda en þeir töldu efni þáttarins vega að friðhelgi einkalífs þeirra.
Sjálft morðið og eftirleikur þess voru sett á svið í þættinum en stefnendum
þótti óviðeigandi að atburðirnir hefðu verið gerðir að afþreyingarefni.
Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var Ríkisútvarpið sýknað af kröfum stefn-
enda og áfrýjuðu aðstandendur dómnum til Hæstaréttar sem staðfesti nið-
urstöðu Héraðsdóms.23
Samkvæmt málflutningi stefndu var markmið þáttanna fyrst og fremst
að sýna skelfilegar afleiðingar eiturlyfjafíknar og til þess að koma efn-
inu á framfæri hafi leikstjórinn þurft að taka sér ákveðið skáldaleyfi.
Stefnendurnir héldu því fram að framleiðendur þáttarins hefðu notað
21 Guðrún Jónsdóttir, „Berrössuð bíræfni – líf að láni“, Fréttablaðið, 12. janúar 2013,
sótt 20. febrúar 2018 af http://www.visir.is/g/2013701129987.
22 „Lögbann á „Þjófur í paradís““, Morgunblaðið, 17. apríl 1975, bls. 2.
23 Í Hæstarétti var krafa um sýknu staðfest sökum þess að stefnendur vildu að Ríkis-
útvarpið yrði sakfellt í stað framleiðslufyrirtækisins, sem var þá orðið gjaldþrota.
Samkvæmt útvarpslögum ber Ríkisútvarpið ekki ábyrgð á því efni sem það sýnir
nema upp að ákveðnu marki. Það var því réttarfarsástæða, en ekki efnisástæða, sem
réð úrskurði Hæstaréttar. Hér verður því fyrst og fremst vísað í málsatvik Héraðs-
dóms.
SAnnAR ÍSLEnSKAR SöGUR?