Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 33
hefur komið, en jafnframt með áherslunni á að konur „taki sér pláss“. Þau
bókmenntadæmi sem hér eru til umfjöllunar sýna tilraunir skáldkvenna til
þess að ögra fegurðar- og hegðunarkröfum og taka þær almennt til athug-
unar, eins og nánar verður vikið að. Í grein sinni „Burlesk stil og performativ
æstetik. Om krop, køn og normalitet?“ (2017) bendir Anne Scott Sørensen
á að kyn, líkami og kynhegðun hefur verið norrænum skáldkonum fæddum
á árunum 1970-1980 hugleikið með margvíslegum hætti, þó ekki með áber-
andi pólitískum upphrópunum að hætti annarrar bylgju femínismans heldur
með performatífum tilbrigðum.135 Sørensen vísar í hugtakið „stelpugroddi“
(e. gurlesque, dk. gurlesk) til þess að lýsa stílbragði sem er áberandi hjá yngstu
kynslóð sænskra skáldkvenna sem þær beita til þess að fjalla um stúlkur og
konur á jaðrinum sem ögra viðteknu velsæmi með atferli sínu, ekki síst í kyn-
ferðislegu tilliti.136 Í næsta kafla verður nánar litið á bókmenntadæmi ungra,
íslenskra skáldkvenna með framangreind atriði í huga.
3.1 Fegurðarímynd og ofbeldi
Samfélagsmiðlarnir bjóða upp á öflugan vettvang fyrir femínískar sam-
stöðuaðgerðir, eins og hér hefur verið rakið, en þeir hafa sannarlega fleiri
hliðar. Það er til dæmis orðið enn auðveldara en áður að fegra yfirborðs-
mynd einstaklingsins á miðlum á borð við Instagram og Angela McRobbie
spyr raunar hvort ekki megi líkja Facebook við fegurðarsamkeppnirnar sem
annarrar bylgju femínistar mótmæltu kröftuglega.137 Það getur verið freist-
andi að safna „lækum“ (e. likes) á myndirnar sínar til þess að öðlast tíma-
bundna vellíðan eins og smásaga Fríðu Ísberg, „Prófíll“ (2018) sýnir. Þar er í
forgrunni ungur fatahönnuður sem hefur breytt nafni sínu Sesselja í Sesselía
vegna þess að henni finnst hið síðarnefnda „fallegra á blaði“.138 Sesselía er
byrjuð í nýrri vinnu og sagan hefst á því að hún verður að yfirgefa dögurð
með samstarfsfólkinu til þess að sinna fjölskylduerindi. Áður en hún sýnir
135 Anne Scott Sørensen, „Burlesk stil og performativ æstetik. Om krop, køn og norm-
alitet?“, Nordisk kvindelitteraturhistorie. Over alle grænser 1990-2015, ritstjóri Anne-
Marie Mai, Odense: Syddanske Universitetsforlag, 2017, bls. 101–111, hér bls. 101.
Rauðan þráð megi sjá í skáldverkum kvenna af þessu aldursbili, sem gera gjarnan
tilraunir með bókarformið og bjóða lesandanum að taka þátt í líkamleika verkanna
(bls. 111).
136 Hugtakið má rekja til sænsku skáld- og fræðikonunnar Mariu Margaretu Öster-
holm. Sama heimild, bls. 101–102.
137 Angela McRobbie, „Notes on the perfect“, bls. 6.
138 Fríða Ísberg, Kláði, bls. 106.