Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 186
ÞRAuTSEIGAR OG ÞORA!
185
Og þótt skrif Irmu Erlingsdóttur um „uppgjör á umbyltingartímum“ beinist
ekki beint að umræddri álfu má auðveldlega heimfæra niðurstöður hennar
um áhrif Me-too hreyfingarinnar þangað. Hún bendir meðal annars á að:
„Þögnin ræður ekki lengur ferðinni heldur rétturinn til að segja frá, bera
vitni og ljóstra upp leyndarmáli.“ […] „Markmið [hreyfingarinnar] var sam-
félagsleg viðurkenning á því að kynferðisofbeldi er kerfislægur vandi“.93
Athyglisvert verður að fylgjast með því hvernig kvennahreyfingar og að-
gerðarsinnar Rómönsku-Ameríku ná aftur vopnum sínum, nú þegar sam-
komu- og útgöngubönnum, sem sett voru vegna Covid faraldursins, er
aflétt. Þær eru komnar af stað. Raddir þeirra hljóma hátt og af einurð og
áræði halda þær ótrauðar áfram baráttunni fyrir jafnrétti og viðurkenningu á
umráðarétti kvenna yfir eigin lífi og líkama. um það vitna störf nýrrar ríkis-
stjórnar í Síle þar sem konur eru í meirihluta og orð nýkjörins varaforseta
Kólumbíu, kvenfrelsiskonunnar Francíu Marquez, sem sagði það verða sitt
fyrsta verk að auka aðgengi fátækra íbúa landsins, ekki hvað síst kvenna, að
gögnum og gæðum samfélagsins, sérstaklega að menntun, m.a. á háskóla-
stigi.94 Slagorð hennar í kosningabaráttunni „Ég er af því að við erum“ (s.
Soy porque somos) má skilja og túlka sem táknmynd hugmyndarinnar um að
hver og ein kona áorkar ef til vill ekki miklu en fjöldahreyfingar þeirra brjóta
hvert blaðið á fætur öðru. Að auki má skilja framgang hennar, ungrar al-
þýðukonu af afrískum uppruna, til æðstu metorða á vettvangi stjórnmálanna
í einu íhaldssamasta landi álfunnar sem táknmynd um aukið sjálfstraust
kvenna í baráttu sinni fyrir viðurkenningu, virðingu, áhrifum og völdum.
93 Irma Erlingsdóttir, „Inngangur. uppgjör á umbyltingartímum“, Fléttur V, Há-
skólaútgáfan, 2020, bls. 11–32, hér af bls. 11 og 19. Hér af bls. 19.
94 Úr viðtali við Francíu Marquez á kosninganótt þann 19. júní 2022. Sótt af https://
www.rtvc.gov.co/. Sjá einnig ávarp hennar „Primer discurso de Francia Márquez
como vicepresidenta de Colombia“. Sótt þann 28. ágúst 2022 af https://www.yo-
utube.com/watch?v=yhmtEffeY7s. Þar segir hún nauðsynlegt að uppræta yfirráð
feðraveldisins í Kólumbíu.