Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 185
HóLMFRÍðuR GARðARSDóTTIR
184
Samantekt
Svo öllu sé til haga haldið er vert að geta þess sem áunnist hefur á þeim fimm
hundruð árum sem liðin eru frá hernámi Rómönsku-Ameríku. Má þar nefna
baráttumál nunnunnar Sor Juana um rétt kvenna til menntunar, rétt til erfða
og slita á hjónaböndum, auk félagaréttar og viðurkenningar á rétti þeirra til
almennrar þátttöku á atvinnumarkaði. Ekki skal heldur gleyma kosninga-
réttinum. Fyrir tilstuðlan baráttu sem fólst í því að koma saman í hópum og
útfæra tillögur til breytinga á lögum njóta konur í dag almennrar réttarstöðu
í samfélaginu og almennra lýðréttinda. Hefðir og venjur eru þó enn víðast
hvar bundnar á klafa viðmiða karlveldisins og kennisetningar kirkjunnar.91
Ríkjandi hugmyndir um karla og konur mótast enn þann dag í dag mjög af
„marianista“ og „machista“ viðmiðum.
Eins og rakið var hér að framan hafa í áranna rás sprottið upp öflugar
fjöldahreyfingar kvenna og þær ráðið úrslitum um árangur. Konur hafa
reynst óþreytandi í baráttunni gegn jaðarsetningu, útskúfun og óréttlæti,
þrátt fyrir mótlæti og ágjöf.92 Róttækar fræðikonur, verkakonur, rithöfundar,
húsmæður og skólastelpur af öllum skólastigum hafa tekið höndum saman
við stjórnmálakonur, aðgerðarsinna og mótmælendur. Með kynjagleraugun
á nefinu og eigin reynslu að leiðarljósi beina þær spjótum sínum og andófi
að ríkjandi skipulagi, viðhorfum og gildum. um erfiði þeirra vitna fjöldaað-
gerðir síðustu ára, mikilvægir áfangasigrar, kvikmyndir, skáldverk og fræði-
bækur sem hverfast um sögulega og pólitíska stöðu kvenna og uppgang
kvennahreyfinga um gervalla álfuna fyrr og nú. Ögrandi raddir þeirra ógna
rótgrónu karlveldi og fjöldamorð á konum votta um takmarkaða virðingu
fyrir lífhelgi þeirra. Þegar valdataumar feðraveldisins trosna og renna því úr
greipum, birtist angistin í öfgafullum viðbrögðum og ofbeldi gegn konum.
91 upp úr 1980 fór meira og meira að bera á ýmiss konar evangelískum kirkjum og
hvítasunnusöfnuðum, oftar en ekki frá Bandaríkjunum. Sjá José Luis Pérez Guada-
lupe, Evangelicals and Political Power in Latin America, þýð. Judy Butler, Lima, Perú:
Instituto de Estudios Social Cristianos, 2019, hér af bls. 23, 28 og 59–60.
92 Árið 2018 varð Claudia Sheinbaum Pardo fyrst kvenna til að gegna starfi borgar-
stjóra Mexíkóborgar og Patsy Campell Barr fyrsta konan til að gegna starfi varafor-
seta Kostaríku. Á síðari árum hafa þó nokkrar konur gegnt embætti forseta. Þeirra á
meðal eru Michelle Bachelet í Síle (2006–2010 og 2014–2018), Cristina Fernández
í Argentínu (2007–2015), Laura Chinchilla í Kostaríku (2010–2014) og Dilma Ro-
usett í Brasilíu (2011–2016). Lucy Grinnell, „Taking Stock. A Hundred Years After
Women´s Suffrage in Latin America“, sótt þann 28. ágúst 2022 af https://nacla.
org/news/2019/03/27/taking-stock-hundred-years-after-women%E2%80%99s-
suffrage-latin-america. Þann 27. janúar 2022 var Xiomara Castro svo kjörin forseti
Hondúras.