Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 117
GUðRÚn STEInÞÓRSDÓTTIR
116
því takmarkað á svipaðan hátt og kvennanna á Kvennabrekku. Þar kemur
hinn stífi vinnutími í veg fyrir að konurnar geti aukið víðsýni sína, til dæmis
með lestri bóka, en á því er raunar hamrað þegar Systa mætir á svæðið með
bókakost sinn. Ketill tekur þá fram að á heimilinu séu bækur ekki vel séðar
og þótt ekki sé óheimilt að hafa þær með sér finnist honum „þetta allskraut-
legt uppátæki hjá Systunni.“ (166) Afstaða hans vitnar um að konum heim-
ilisins er ekki ætlað að rækta áhugamál sín heldur eigi þær fyrst og fremst að
helga sig vinnukonustarfinu.
Starfsemina á Kvennabrekku má líka skoða sem smáheim sem endur-
speglar veruleika margra erlendra kvenna í íslensku nútímasamfélagi.67 Hér-
lendis er ekki aðeins algengt að konur af erlendu bergi brotnu sinni lág-
launastörfum heldur þekkjast því miður dæmi þess að konur hafi bókstaflega
verið fluttar til landsins, þær lokaðar inni til að sinna tiltekinni vinnu og
fengið í laun fæði og húsnæði; rétt eins og vinnukonurnar á Kvennabrekku.68
vallarriti sínu Sérherbergi (e. A Room of One‘s Own (1929)) sem fjallar um konur, bók-
menntir, frelsi og skilyrði til listsköpunar. Sjá Virginia Woolf, Sérherbergi, þýðing
Helga Kress, Reykjavík: Svart á hvítu, 1983, til dæmis bls. 154. Í annarri bylgju
femínisma var síðan lögð enn frekari áhersla á að skoða stöðu konunnar innan heim-
ilisins og þau höft sem hún bjó við en í því samhengi má meðal annars minnast
bókarinnar The Feminine Mystique (1963) eftir Betty Friedan sem hafði gífurleg áhrif
á kvennabaráttu í hinum vestræna heimi.
67 Þótt Ísland sé þekkt fyrir að standa sig vel í jafnréttismálum og íslenskar konur hafi
náð langt á mörgum sviðum atvinnulífsins hallar mjög á erlendar konur á íslenskum
vinnumarkaði. Þær eru taldar mynda viðkvæmasta hóp vinnumarkaðsins með tilliti
til atvinnutækifæra og launa auk þess sem þær búa oft við veika félagslega stöðu í
samfélaginu. Rannsóknir á íslenskri atvinnuþátttöku hafa raunar bent til þess að sá
mikli árangur sem náðst hefur í jafnrétti kynjanna á Íslandi hafi beinlínis verið á
kostnað kvenna af erlendum uppruna sem í auknum mæli tóku að sér mörg af hinum
láglaunuðu „kvennastörfum“ í þrifum og umönnun og „festust“ þar þótt þær hefðu
aflað sér menntunar á öðrum sviðum. Sjá Sveinbjörg Smáradóttir og Markus Meckl,
„Hvað þarf til svo að erlendar menntakonur fái vinnu við hæfi?“, Tímarit félagsráð-
gjafa 1/2021, bls. 27– 33, hér bls. 28.
68 Í þessu samhengi má til dæmis minnast þess að árið 2016 kom í ljós að tvær konur
frá Srí Lanka bjuggu í húsi í Vík í Mýrdal og unnu þar við saumaskap fyrir eiganda
hússins. Þær fengu fæði og húsnæði auk þess sem peningar voru sendir úr landi
fyrir aðra konuna. Konurnar þekktu ekkert til á Íslandi en þegar þær fundust höfðu
þær aldrei farið út fyrir Vík í Mýrdal fyrir utan að þær fóru eitt sinn í Bónus á Sel-
fossi. Mál kvennanna var rannsakað sem mansalsmál en látið niður falla í héraðs-
dómi. Sjá Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Þórhildur Þorkelsdóttir, „Mansalsmálið í
Vík. Konurnar voru mjög hræddar þegar málið kom upp“, Vísir 29. júní 2017, sótt
24. júní 2022 af https://www.visir.is/g/20171763230d. Til viðbótar má einnig nefna
að á ráðstefnu félagsfræðinga í október 2021 benti Ragna Björg Guðbrandsdóttir,
teymisstjóri Bjarkarhlíðar, á að árið 2020 komu upp 13 tilfelli þar sem grunur var
um mansal og tvö tilfelli þar sem um var að ræða smygl á fólki. Í erindi hennar