Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 209
ITAMAR EVEN-ZOHAR
208
ólíkum undirkerfum. Þessi kerfi skarast með margvíslegum hætti og hafa
gagnkvæm áhrif hvert á annað og þar með sögulega þróun innan viðkom-
andi bókmennta. Meðal þess sem vakti fyrir Even-Zohar var að víkka sjón-
deildarhring hefðbundinna bókmenntarannsókna sem beinast að verulegu
leyti að afmörkuðum þáttum bókmenntakerfisins, einkum frumsömdum
skáldverkum sem teljast til fagurbókmennta og eru ætluð fullorðnum. Slíkar
áherslur í rannsóknum má skýra með því að viss listbrögð, bókmennta-
greinar eða undirkerfi bókmennta eru miðlæg innan bókmenntakerfisins á
meðan önnur eru jaðarsett. Þessi staða getur hins vegar verið breytileg frá
einu bókmenntakerfi til annars og líka breyst með tímanum innan tiltekins
bókmenntakerfis. Staða þýddra bókmennta, sem Even-Zohar lítur á sem
sérstakt undirkerfi viðkomandi bókmennta, er sérstaklega áhugaverð í þessu
sambandi þar sem þær geta ýmist verið miðlægar eða jaðarsettar, virkað sem
róttækt umbreytingaafl eða fest ríkjandi viðmið í sessi.
Fjölkerfiskenningin hefur verið nýtt á liðnum áratugum í margháttuðum
menningarsögulegum rannsóknum en áhrif Even-Zohars eru líklega enn
víðtækust á sviði þýðingafræði. Greinin sem hér er þýdd á íslensku hefur
leikið lykilhlutverk í því sambandi. Hún var upphaflega flutt sem fyrirlestur
árið 1976 og birtist fyrst tveimur árum síðar undir titlinum „The Position of
Translated Literature within the Literary Polysystem“, annars vegar í ritinu
Literature and Translation: New Perspectives in Literary Studies, sem hafði að
geyma greinar eftir ýmsa höfunda, og hins vegar í greinasafni Even-Zohars
sjálfs, Papers in Historical Poetics.1 Árið 1990 endurskoðaði Even-Zohar efn-
ið í síðarnefnda safninu og gaf út ásamt ýmsum greinum sem hann hafði
skrifað í millitíðinni.2 Yngri gerðin var lögð til grundvallar þeirri þýðingu
sem hér er birt. Í tveimur neðanmálsgreinum má þó finna tvo veigamikla
kafla úr upprunalegu gerðinni sem ekki eru í yngri gerðinni.
Jón Karl Helgason
1 Sjá Itamar Even-Zohar, „The Position of Translated Literature within the Literary
Polysystem“, Literature and Translation: New Perspectives in Literary Studies, ritstjór-
ar James S. Holmes, J. Lambert og R. van den Broeck, Leuven: Acco, 1978, bls.
117−127; Itamar Even-Zohar, „The Position of Translated Literature within the
Literary Polysystem“, Papers in Historical Poetics, Papers in Poetics and Semiotics
8, Tel Aviv: Tel Aviv University og The Porter Institute for Poetics and Semiotics,
1978, bls. 75−92.
2 Itamar Even-Zohar, „The Position of Translated Literature within the Literary
Polysystem“, Polysystem Studies, sérhefti af Poetics Today 11: 1/1990, bls. 45−52.
Þetta safn er grundvallarrit fjölkerfiskenningarinnar og hægt er að nálgast það,
eins og flest önnur fræðileg skrif Even-Zohars, í rafrænni útgáfu á heimasíðu hans
(https://www.tau.ac.il/~itamarez/).