Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 137
ARnFRÍðUR GUðMUnDSDóTTIR
136
el)54 og taldi hafa verið ráðandi í „mainstream Christianity“ allt frá tímum
Fornkirkjunnar.55 Helstu gallar einræðis-líkansins voru, að mati McFague,
númer eitt áherslan á fjarlægðina milli Guðs og heims. Í öðru lagi væri þetta
mjög mannmiðlægt líkan þar sem Guð hafi aðeins samskipti við mannfólkið.
Í þriðja lagi stjórni einræðisguðinn með því að deila og drottna, sem væri í
andstöðu við áherslu kristinnar trúar á kærleika og miskunnsemi Guðs.56
Gegn einræðislíkaninu setur McFague fram líkanið af heiminum sem
líkama Guðs (e. Body of God). Samkvæmt því er áherslan á nærveru (e. imm-
anence) Guðs en ekki handanveru (e. transcendence), þar sem Guð og heimur
eiga í nánum samskiptum, sem einkennast af umhyggju og kærleika Guðs
fyrir sköpun sinni. Í þessu líkani er athyglinni beint að kærleika Guðs, sem
er hið sanna eðli Guðs, og myndlíkingar fyrir persónur þrenningarinnar
valdar í samræmi við það.57 McFague segir að val hennar ráðist af því að
hún vilji að myndlíkingarnar endurspegli kærleikann í okkar nánustu og
persónulegustu samböndum, nefnilega sambandi móður og barns, á milli
elskenda og vina. Með því að láta myndlíkingar af móður, ástmær (e. lover) og
vinkonu (e. friend) tjá hina heilögu þrenningu vill McFague leggja áherslu á
óhlutdræga elsku móðurinnar (e. impartial), sameinandi elsku elskhugans (e.
reuniting) og gagnkvæma (e. reciprocal) elsku í vinasambandi.58
„Ég er sú sem ég er“
Fáar bækur hafa haft meiri áhrif á þróun femínískrar endurskoðunar á guðs-
mynd kristinnar trúarhefðar en bók Elizabeth A. Johnson (1941), She Who
Is. The Mystery of God in Feminist Theological Discourse, sem kom fyrst út í
byrjun 10. áratugarins. Setningin „The symbol of God functions“59 gefur
54 Sallie McFague, Models of God. Theology for an Ecological, Nuclear Age, philadelphia:
Fortress press, 1987, bls. 63.
55 Tími Fornkirkjunnar var frá 1. til 5. aldar e. Kr. og tók við af tímabili Frumkirkj-
unnar á síðari helmingi 1. aldar e. Kr.
56 Sama heimild, bls. 65.
57 Þessi áhersla endurspeglar meðal annars eftirfarandi texta úr fyrsta Jóhannesarbréfi:
„Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver
sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því
að Guð er kærleikur“ (4. 7–8).
58 McFague, Models of God, bls. 91. Í líkani McFague má greina hinar ólíku birtingar-
myndir kærleikans sem túlkaðar hafa verið með grísku hugtökunum agape (skil-
yrðislaus ást), eros (ást sem beinist að hinu eftirsóknarverða) og philia (kærleikur sem
byggir á vinskap).
59 Elizabeth A. Johnson, She Who Is. The Mystery of God in Feminist Theological Disco-
urse, new York: Crossroad, 1992, bls. 4.