Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 96
DÓSAFRÍðA, FLAnDRARI OG HRjÁð DÓTTIR
95
ur sinnar og gerð grein fyrir afleiðingum hennar með tilliti til kenninga um
tráma. Í greiningu á verkinu verður einnig litið til þess hvernig samfélagið
og fjölskyldutengsl hefta frelsi Systu og ýta undir að hún sinni ákveðnum
hlutverkum sem skerða sjálfstæði hennar.
Vettvangur daga Systu
„Bókin er tileinkuð Reykjavík borg lífs míns“5 stendur á saurblaði Systu meg-
in. Það er vel við hæfi enda sú borg sögusvið margra skáldverka Steinunnar
Sigurðardóttur, þar á meðal leiksögunnar sem hér er til umfjöllunar.6 Systa
ólst upp í dýrri íbúð á Fjólugötunni en þegar sagan hefst er staða hennar
önnur; hún er bláfátæk utangarðskona sem dregur fram lífið með dósa-
söfnun. Hún býr á Lokastíg þar sem hún leigir kjallaraíbúð með mjög lágri
lofthæð og hefur eingöngu aðgang að kemísku klósetti. Í íbúðinni er lítill
óopnanlegur gluggi og engin eldunaraðstaða nema prímus. Samastaðarí-
gildið7 er sem sagt ekki beysið enda „eru það göturnar í borginni og göngu-
stígarnir og stöku yfirgefinn róló bak við heiminn“ (7) sem eru vettvangur
daga Systu. Einum þræði minnir persónan á flandrara því daglega arkar hún
fremur stefnulaust um götur borgarinnar og hlakkar til að „sjá hvað garð-
arnir allir og göturnar og birtan og mannlífið“ (7) muni bjóða henni upp á.8
5 Steinunn Sigurðardóttir, Systu megin, Reykjavík: Mál og menning, 2021, saurblað.
Eftirleiðis verður vísað til bókarinnar með blaðsíðutali í sviga.
6 Sem önnur dæmi má nefna Tímaþjófinn (1986), Ástin fiskanna (1993), Frænkuturninn
(1998) og Sólskinshest (2005).
7 Með þessu orði er vísað í vistarverur Systu í bókinni en túlka má heitið sem skemmti-
lega vísun í bók Málfríðar Einarsdóttur, Samstað í tilverunni (1977). Málfríður átti
eitt og annað sameiginlegt með persónunni Systu, til dæmis bjó hún í Reykjavík
meginhluta ævi sinnar og var að mörgu leyti jaðarpersóna í því samfélagi sem hún
lifði og hrærðist í meðal annars vegna kyns síns, stéttarstöðu og veikinda. Sjá til
dæmis Guðrún Steinþórsdóttir, „Sú skúfun varð ævilöng“. Um rithöfundinn Mál-
fríði Einarsdóttur og verk hennar Úr sálarkirnunni, meistararitgerð í íslenskum bók-
menntum við Háskóla Íslands, 2013. Ritgerðin er aðgengileg á Skemmunni: https://
skemman.is/handle/1946/14668. Tekið skal fram að Steinunn og Málfríður voru
vinkonur en sú fyrrnefnda las upp Samastaðinn í útvarpið auk þess sem hún tók við-
töl við þá síðarnefndu, þar á meðal afar eftirminnilegt útvarpsviðtal árið 1978. Sbr.
Steinunn Sigurðardóttir, „Það sem skopast upp úr sálarkirnunni“, RÚV, 1978. Upp-
töku af viðtalinu má nálgast hér: https://www.ruv.is/frett/thad-sem-skoppast-upp-
ur-salarkirnunni.
8 Eins og Guðni Elísson hefur bent á hefur Steinunn Sigurðardóttir áður skrifað um
konur sem flandrara; til dæmis í skáldsögunum Hjartastað (1995) og Hundrað dyr í
golunni (2002) auk þess sem ýmsir ljóðmælendur hennar reika stefnulaust um líkt og
flandrarar. Sjá Guðni Elísson, „Við sumarlangan veginn. Hjartastaður og vegafrá-