Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 53
AlDA BjöRK VAlDImARSDóTTIR
52
Femínískt kynslóðastríð?
margir gagnrýnendur hafa velt því fyrir sér hvort yfirhöfuð sé hægt að skil-
greina póstfemínisma sem femíníska hreyfingu, eða hvort um sé að ræða
ákveðið bakslag í femínískri hefð, jafnvel einhvers konar andfemínisma.4
Póstfemínísk viðhorf hafni femínískum gildum og snúi aftur til tíma áður en
femínisminn kom fram á sjónarsviðið. Um sé að ræða ákveðið mótþróatíma-
bil, uppreisn dætra þeirra femínista sem stýrðu annarri bylgju femínismans
á sjöunda og áttunda áratugnum. Þessar ungu konur áttu erfitt með að máta
sig við kenningar og hugmyndafræði kynslóðarinnar sem kom á undan og
þótti stefnan einkennast af boðum og bönnum, vera einstrengingsleg, fyrir-
skipandi, mótuð af andúð á körlum, andúð á kynlífi og of mikilli áherslu
á að konur væru fórnarlömb karla. En svo mætti halda því fram að átaka-
línur af þessu tagi séu einmitt einkennandi fyrir femínismann líkt og Angela
mcRobbie hefur bent á.5 Aðrir telja að póstfemínískar hugmyndir hafi verið
viðbrögð við hvítum, gagnkynhneigðum, miðstéttarviðhorfum eldri kyn-
slóða. En líkt og nicola Rivers bendir á hefur andstaðan við stórfrásagnir (e.
grand narrative) hinna hvítu forréttindahópa sem tilheyra vestrænum femín-
isma verið viðloðandi mun lengur. Eftir umræðu um mannréttindi og kven-
réttindabaráttuna árið 1851 spurði kvenréttindakonan og fyrrum þrællinn,
Sojourner Truth: „Er ég ekki kona líka?“6
Það að póstfemínismi sé talinn vera viðbrögð við femínisma og að sumu
leyti andsvar við hugmyndafræði sem ungar konur á níunda áratug síðustu
aldar sáu sig ekki í, má greina í vinsælli bók Susan Faludi, Backlash. The Un-
declared War Against American Women sem kom út 1991 og varð metsölubók.
Faludi skoðar breytt pólitískt umhverfi á níunda áratugnum og ræðir um
áhrif fjölmiðla, birtingarmyndir kvenna í fjölmiðlum og afþreyingarmenn-
ingu. Hún dregur meðal annars fram hvernig Reagan- og Thatcher-tíma-
bilið einkenndist af töluverðri íhaldssemi, hvernig umfjöllun í fjölmiðlum
ásamt hægrisinnaðri pólitískri orðræðu varð til þess að skapa hugmynda-
4 Stéphanie Genz og Benjamin A. Brabon, Postfeminism, Cultural Texts and Theories.
Edinburgh: Edinburgh University Press, 2009, bls. 51.
5 Angela mcRobbie, „Post-Feminism and Popular Culture“, Feminist Media Studies
3/2004, bls. 255–257. Sjá einnig Alda Björk Valdimarsdóttir, Jane Austen og ferð
lesandans, bls. 139–140.
6 nicola Rivers, Postfeminism(s) and the Arrival of the Fourth Wave. Turning Tides,
Cham: Palgravemacmillan, 2017, bls. 10. nefna má að mörgum svörtum konum
finnst það vera rasískt að telja reynslu hvítra kvenna af karlveldi eiga við um allar
konur.