Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 149
UNNUR BIRNa KaRlSDóTTIR
148
og hegðunar gagnvart henni. Jaðarsetning kvenna og náttúru sé augljós,
enda sé „móðir jörð“ eða „móðir náttúra“, eins og sú útbreidda kyngerving
náttúrunnar hljóðar, ekki vernduð fyrir arðráni og kúgun, og hið sama gildi
um konur, þar eð ekki aðeins sé móðurhlutverkið á höndum kvenna heldur
einnig flest umönnunarstörf önnur og ábyrgð á börnum og fjölskyldu, en
konur búi engu að síður við undirmálsstöðu um nær allan heim.26
Raddir innan vistfemínisma hafa þannig leitast við að varpa ljósi á
hvernig konur hafa verið tengdar náttúru umfram karla vegna hefðbundins
samfélagshlutverks kvenna við uppeldi og umönnun, og víða í heiminum
nær einhliða ábyrgð kvenna á þessum hlutverkum. Það sé því menningar-
leg og félagsleg kyngervandi ákvörðun að skilgreina konur vegna móður-
hlutverks og umönnunar í nánari tengslum við náttúruna en karla.27 aðrar
raddir hafa haldið því á lofti að konur séu tengdari náttúrunni en karlar
vegna þess líffræðilega og félagslega hlutverks sem þær hafa í samfélag-
inu. Dæmi um slíkt eru skrif indversku baráttukonunnar og vistfræðings-
ins Vandana Shiva sem telur að konur hafi einstök tengsl við náttúruna í
gegnum sitt daglega líf og að þessi tenging hafi verið vanmetin. Samkvæmt
Shiva hafa konur, í samfélögum með hagkerfi sem skapa verðmæti byggð á
nýtingu náttúruafurða úr nærumhverfinu í jafnvægi og samvinnu við nátt-
úruna, áunnið sér djúpa og heildræna vistfræðilega þekkingu á ferlum nátt-
úrunnar. Hún gagnrýnir að þekking kvenna af þessu tagi, sem beinist að
ávinningi og nægjusamri framfærsluþörf samfélagsins, sé ekki viðurkennd
eða metin í hinu samkeppnismiðaða kapítalíska hagkerfi. Í því síðastnefnda
skorti bæði skilning á tengslum náttúrunnar sjálfrar innbyrðis og á tengsl-
unum milli náttúru og kvenna, lífs þeirra, þekkingar og verðmætasköpunar.
Hún kennir um þeirri sýn á þróun og framfarir sem sé ráðandi í vestrænu
kapítalísku feðraveldi. Shiva segir að talsmenn þess átti sig ekki á þeim verð-
mætum, samfélagslegum og umhverfislegum, sem ofangreind tengsl kvenna
við náttúru fela í sér, heldur telji þeir þau ekki til verðmæta í hagvaxtardrifnu
en óheildrænu og ósjálfbæru hagkerfi fjöldaframleiðslu og iðnaðar.28 Dæmi
26 Karen J. Warren, „Feminist Environmental Philosophy“, The Stanford Encyclopedia
of Philosophy, Metaphysics Research lab, Stanford University, 2015.
27 Mark C. J. Stoddart og David. B. Tindall, „Ecofeminism, Hegemonic Masculinity,
and Environmental Movement Participation in British Columbia, Canada, 1998–
2007. „Women always Clean Up The Mess““, Sociological Spectrum 31: 3/2011, bls.
342–368, sótt 25. febrúar 2022 af doi:10.1080/02732173.2011.557065.
28 Vandana Shiva, Staying Alive; sami höfundur, „Development as a New Project of
Western Patriarchy“, Reweaving the World. The Emergence of Feminism, ritstjórar
Irene Diamond og Gloria Feman Orenstein, án útgáfustaðs: Sierra Club Books,