Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 123
ARnFRÍðUR GUðMUnDSDóTTIR
122
ari staðhæfingu verður spurt um helstu áherslur femínískrar nálgunar innan
guðfræðinnar og þá gagnrýni sem frumkvöðlar hennar settu fram á hefð-
bundna guðfræðiumræðu, sem í tæp tvö þúsund ár hafði að mestu leyti verið
skrifuð af körlum fyrir karla. Hér verður einungis fjallað um leiðandi banda-
ríska guðfræðinga, sanna brautryðjendur í sínu fagi, en áhrif þeirra voru um-
talsverð fyrir utan þeirra heimaland á því tímabili sem hér er í brennidepli.
Þá verður umfjöllunin takmörkuð við hvíta femínista, en upp úr 1980 hófu
konur af öðrum kynþáttum að gagnrýna hvítu femínistana fyrir að yfirfæra
eigin reynslu af því að tilheyra forréttindahópi bandarísks samfélags upp á
konur sem glímdu ekki aðeins við kvenfyrirlitningu, heldur einnig kynþátta-
fordóma og stéttaskiptingu. Á þessum tímamótum urðu konur af öðrum
kynþáttum mjög áhrifamiklar í guðfræðiumræðunni vestan hafs og til urðu
guðfræðistefnur sem hafa átt stóran þátt í að móta guðfræðiumræðuna á síð-
ustu áratugum, meðal annars womanista guðfræði kvenna af afrískum upp-
runa og mujerista guðfræði spænskættaðra kvenna.2 Það fellur utan ramma
þessarar greinar að gera þessum mikilvægu guðfræðistefnum tilhlýðileg skil.
Greinin skiptist niður í þrjá hluta, eftir þeim þremur meginstefjum sem
er að finna í femínískri guðfræði frá upphafi og fram á tíunda áratug síðari
aldar.3 Í fyrsta lagi er það gagnrýni á karlægni kristinnar trúarhefðar, í öðru
lagi leitin að týndri sögu kvenna og í þriðja lagi endurskoðun á lykilhug-
tökum og helstu viðfangsefnum kristinnar guðfræði í ljósi reynslu kvenna og
kröfunnar um fullt jafnrétti kvenna og karla.4
Í upphafi var femínísk gagnrýni
Karlmiðlægur hugsunarháttur kristinnar trúarhefðar kemur meðal annars
fram í neikvæðum og niðrandi viðhorfum til konunnar, þar sem henni er
kennt um tilkomu syndarinnar, hún álitin óhrein og eign karlmannsins. Af
þessum sökum hefur þörfin á gagnrýninni endurskoðun hefðarinnar þótt
ótvíræð í þeim tilgangi að binda endi á margra alda misnotkun hennar
til þess að réttlæta kúgun kvenna. Gagnrýnin hefur frá upphafi beinst að
2 Meðal frumkvöðla í hópi womanista guðfræðinga og mujerista guðfræðinga eru Jac-
quelyn Grant, Delores Williams og Ada Maria Isasi-Diaz.
3 Femínísk guðfræði einkennist að margra mati af þríþættu markmiði, en jafnframt
má greina sögulega þróun innan hennar, þar sem gagnrýnin kom fyrst, því næst
endurheimtin, en hvort tveggja lagði grunninn að nýjum áherslum og breyttri orð-
ræðu.
4 Anne Carr, Transforming Grace. Christian Tradition and Women‘s Experience, San
Francisco: Harper & Row, bls. 7–9.