Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1965, Blaðsíða 89
erlendir munaðardúkar
93
I Austurlöndum nær ættu því að vera öll skilyrði fyrir hendi til
framleiðslu af því tagi, sem hér um ræðir. Sá hængur er þó á, að
gera yrði ráð fyrir, að gamli kljásteinavefstaðurinn hefði verið í
notkun meðal handverksmanna þar allt fram á 10. öld. Á þessum
tíma voru til í Austurlöndum nær miklu fullkomnari vefstólar af
láréttu gerðinni, eftir varðveittum dúkleifum að dæma, en ef til vill
mætti hugsa sér, að mismunandi gerðir af vefstólum hefðu verið
í notkun samtímis, og t. d. að gömul vefnaðarhefð hefði haldizt á
tilteknum stað og fíngerðu hringavaðmálin þá verið ofin þar. Eins
og er, verður þó ekkert vitað um þetta með vissu.
Um 1000 er að sjá sem mikilvæg umskipti á vefnaðaráhöldum
eigi sér stað í Vestur-Evrópu, því að lárétti vefstóllinn með skamm-
elum kemur í fyrsta skipti fram í heimildum á 11. öld. Upplýsingar
um hann eru örfáar og tilviljunarkenndar, og ekki er vitað, hvaðan
hann barst. Hann ryður sér til rúms með leifturhraða og er frá
upphafi tengdur iðn félagsbundinna handverksmanna. Fíngerðu
hringavaðmálin finnast nú ekki framar. Satt er, að mjög litlar
leifar ullardúka hafa varðveitzt frá miðöldum, mölur og ryð hafa
grandað þeim. En með skjallegum heimildum hefur varðveitzt
mikið af reglugerðum og ákvörðunum vefaragildanna, og þær
veita vitneskju um efnin, sem ofin voru. f skjölunum sjást engin
merki þeirra dúka, sem hér er um rætt. Hins vegar kemur þar
fram nýr munaðardúkur, skarlat (n. skarlat eða skarlagen), sem
nefndur er í evrópskum heimildum frá 11. öld og síðar. Hann
er einnig alkunnur úr íslenzkum fornsögum. Svo er að sjá sem
hann hafi oft verið með skærrauðum lit, og af því leiddi, að merking
orðsins skarlats færðist yfir á litinn á síðari hluta miðalda. Eftir
því, sem ráðið verður af heimildum — engar leifar efnisins hafa
varðveitzt, svo vitað sé — hefur skarlat verið með allt annarri gerð
en efnin frá Snæhvammi og Reykjaseli, þ. e. þæft og lóskorið mjúkt
efni, með smágerðri ló og án sýnilegrar vefnaðargerðar.19 Ef til
vill hefur það verið eftirlíking af persnesku efni, eins og nafnið,
sem leitt er af persneska orðinu sakirlat, virðist benda til.20
1 grein í Fornvánnen 1965, sem öðrum þræði er umsögn um
bók greinarhöfundar um gamla vefstaðinn, lýsir Agnes Geijer yfir
því, að hún hallist að því nú, að fíngerðu efnin af gerðinni frá
Reykjaseli og Snæhvammi hafi verið ofin í Sýrlandi. Hún hvikar
þó ekki frá þeirri skoðun sinni, að þessi efni hafi verið nefnd pallia
fresonica; að hennar áliti hafa þau á Vesturlöndum fengið nafn
af frísneskum kaupmönnum, sem verzluðu með þau.