Andvari - 01.03.1969, Blaðsíða 77
ANDVARI
SKÁLDIÐ CARL MICHAEL BELLMAN
75
elska konungs, Gústavs III, og var aufúsugestur og hrókur fagnaðar í hallarsöl-
um, en síðar var skuldafangelsi honum tíðari heimkynni, og bölvaldurinn var
sá hinn sami Bakkus, er réð sköpum úrsmiðsins.
Sagt hefur verið um þá kumpána, Fredman og félaga hans, að þeir sameini
gamalsænskan guðsótta þeygi dyggðugu líferni og að þeir séu ölkærir flottræflar
með franskan sjarma. En því stílbragði Bellmans, að sveipa sína brennivínsber-
serki og knæpukvendi smánettum þokka rókókósins, er næstum ógerningur að
skila, svo vel sé, í íslenzkri þýðingu, því ekki mun neitt skeið evrópskrar list-
menningar íslendingum jafn fjarlægt og rókókóinn. Hér við bætist, að goðheimur
Bellmans, sem setur svip á mörg kvæði hans, er sá gríski, enda þótt Freyju bregði
þar fyrir, en grískur goðheimur er flestum nútíma íslendingum alveg ókunnur.
Prímadonna og prýði kunningjahóps Fredmans í pistlum Bellmans er hin
þokkafulla og léttlynda Ulla Winblad, í raunveruleikanum Maria Christina
Kiellström, sem kallaði sig stundum Winblad eftir fóstru sinni, tvígift og við
fleiri fjalir felld. Með henni og Bellman var nokkur kunningsskapur. Ekki mun
hún hafa átt mikið af þeim yndisþokka, sem Bellman ljær LIllu Fredmanspistl-
anna. Á yngri árum var Bellman ástfanginn af stúlku, sem hét Ingrid Margareta
Lissander, og orti til hennar mörg ástarljóð, senr hann varpaði á eld, er upp úr
vinskapnum slitnaði, en talið er að þau endurómi í fegurstu Ijóðum hans um
Ullu.
En gildi pistla Fredmans felst ekki nema að nokkru leyti í litríkum persónu-
lýsingum. Ekkert skáld hefur málað í ljóðum sínum jafnmargar og meistaralegar
myndir af Stokkhólmsborg og umhverfi hennar. Bellman dáir þessa borg, með
hólmum hennar og sundum, koparþökum og kirkjuturnum, krám og öngstræt-
um, borg, sem á hans dögum var nokkru fólksfærri en Reykjavík er nú, en bar
þess mörg merki að hafa á næstliðinni öld verið höfuðborg stórveldis, og einnig
merki þess, að Gustav III var ótrauður og áhrifamikill boðberi franskrar list-
menningar. Já, Bellman dáir þessa borg, og hann er blátt áfram ástfanginn af
hinu náttúrufagra umhverfi hennar, Leginum og Saltsæ með víkum og vogum,
sumarsælum Haga og Djurgárden, með veitingakrám umgirtum eikum og lind-
um og þeim himni, er yfir hvelfist með sínum síbreytilegu skýjum. Allt þetta
fær æ meira rúm í kvæðum skáldsins eftir því sem árin færast yfir. Og jafnan
er hann málar sveitasæluna af dýpstri tilfinningu, er Lllla þar með á mynd. Jafn-
vel ljóð, sem endar á skoplegri lýsingu á ærnu drykkjusvalli, upphefst þannig,
af því að Ulla á í hlut;