Andvari - 01.03.1969, Blaðsíða 139
ANDVARI
FULLVELDIÐ FIMMTUGT
137
eru til og vilja vera til, og heimurinn yrði fátælcari og verri, ef þau hyrfu af
sjónarsviðinu. Þess vegna eiga stór ríki og smá að vinna saman. Þau geta sitt-
hvað lært hvert af öðru. Þau geta aðstoðað hvert annað.
Nú, á fimmtíu ára afmæli íslenzks fullveldis, er heimurinn allt öðru vísi en
hann var 1918, þegar fullveldi íslands var viðurkennt. Þá var auðveldara fyrir bæði
stórar þjóðir og smáar að róa einar á báti en nú er. Nú er margs konar samvinna
þjóða í milli beinlínis forsenda þess, að þær geti fylgzt með í þeirri framþróun,
sem er að verða í heiminum, skilyrði þess, að þær geti varðveitt sjálfstæði sitt og
verndað þjóðmenningu sína samtímis því, sem þær auka þekkingu sína og bæta
lífskjör sín. Til þess að takast á við þessi verkefni, sem framundan eru, þarf
skilning á gildi þekkingar og skipulagsgáfu, það þarf hæfileika til aðlögunar að
síbreytilegum aðstæðum, það þarf trausta menntun og öflugan félagsþroska, það
þarf samvinnuvilja og virðingu fyrir sjónarmiðum og hagsmunum annarra og
góðvild og þolinmæði í samskiptum við aðra. Það er heitust ósk íslendinga nú,
á hálfrar aldar afmæli fullveldis þeirra, að þeim megi um alla framtíð takast að
varðveita þetta fullveldi og vernda þjóðerni sitt og þjóðmenningu. Og þetta vilja
þeir gera með góðri samvinnu við nágranna sína og ekki sízt þá þjóð, sem er
næsti nágranni hennar og öldum saman hefur verið helzti viðskiptavinur hennar,
þá þjóð, sem Atlantsálar hafa tengt íslendinga við traustum böndum, þá þjóð,
sem reynslan hefur sýnt, að á ríkra hagsmuna að gæta á því hafi, sem tengir
löndin. Þess vegna lýk ég þessum orðum mínum á þessum stað með því að láta
í ljós þá ósk og von, að um allar aldir megi ríkja vinátta og gott samstarf milli
Islendinga og Breta.