Andvari - 01.03.1969, Side 155
ANDVARI
ÍSLENZKUR PRÓSASKÁLDSKAPUR 1968
153
bannvara í skáldsbap. Sem betur fer láta skáld ebbi segja sér fyrir verkuni, og
því verður þeim hvorki fyrirskipað né bannað að taka til meðferðar í skáldskap
hvern þann vanda, sem á þau stríðir.
Margt bendir til þess, að krufning félagslegs og pólitísks vanda í skáldskap
fari vaxandi, bæði í leikritum, skáldsögum og í vissum mæli í ljóðum. Sú hefur
a. m. k. verið þróunin á síðustu árum í nágrannalöndum okkar. Ég hygg það
tvímælalaust hollara, að þau skáld, sem takast á við slíkan vanda, velji sér hlut-
verk hrópandans í eyðimörkinni, séu vakandi samvizka og gagnrýnið auga þess
samfélags, sem þau byggja, fremur en þau gerist einhvers konar auglýsinga-
stjórar eða sölumenn kerfisins.
Með Snönmni hefur Jakobína Sigurðardóttir kvatt sér hljóðs í hópi þessara
skálda með svo sönnum og eftirminnilegum hætti, að ekki verður daufheyrzt við.
Nýr bátnr á sjó.
Það gerist ekki á hverjum degi, að út komi fyrsta skáldverk nýs höfundar,
sem sé í röð athyglisverðustu bóka á sama tíma. Þetta varð þó 1968 með smá-
sagnasafni Vésteins Lúðvíkssonar, Átta röddurn úr pí'pulögn.
Þessi ungi maður virðist hafa ótvíræða höfundargáfu. Hann skrifar í næsta
hefðbundnum stíl. Áferð máls er slétt og hnökralaus og frásögnin sérlega létt-
streym. Hann hefur hverju sinni sögu að segja, og að baki þeim slær jöfn og
róleg epísk æð.
Eitt megineinkenni allra sagnanna er sérstæð, undirfurðuleg kímni. Laun-
kárt bros höfundar vakir alls staðar. Það er og Vésteini mikill styrkur, að hann
virðist ekki síður sjá sjálfan sig í þessu ljósi en aðra hluti. Höfundur er lág-
mæltur og hógvær, en stíllinn persónulegur og sterkur í yfirlætisleysi sínu.
Flestar sagnanna bera vitni sálfræðilegum áhuga höfundar. Söguhetjurnar
standa gjarna á mótum hins afbrigðilega og hversdagslega. Flestar fylgja þær
góðborgaralegu og viðurkenndu lífsmunstri, en rammi þess er á mörkunum að
bresta. Ýmsar persónur sagnanna eru þar staddar, sem þær halda ekki lengur út
í þeim viðjum, sem umhverfi og lífsvenjur leggja á þær. Að hálfu lifa þær í
heimi draums — að hálfu í veruleika. Ef til vill finnst mér athyglisverðast, hversu
átakalítið höfundur fylgir persónum sínum milli þessara tveggja heima.
Söguhetjur Vésteins segja gjarna frá í fyrstu persónu. Slíkt færir lesanda nær
þeim, en samtímis er því líkt, sem persónurnar sjái sjálfar sig og lýsi sér úr
töluverðum fjarska. Þannig tekst höfundi oft að láta þær sjást úr tveimur sjónar-
hornum í senn.
Vésteinn sýnir svo sjaldgæfan þroska nú þegar í þessari fyrstu bók sinni, að
til hans verða miklar kröfur gerðar í framtíðinni.