Andvari - 01.03.1969, Page 171
ANDVARI
UM GRÓANDI ÞJÓÐLÍF ÞORSTEINS THORARENSENS
169
komst til vits og ára. Þingeyingar litu á hann sem gáfaðan og mikilhæfan mann,
sem horfinn var úr héraðinu, hefði reynzt því á ýmsan hátt vel, en verið kaup-
félagi þess andstæður og átt þátt í að sækja mál gegn því af kappi, og hefði það
verið harðsótt glíma. Það mál varð því valdandi, að Suður-Þingeyingar vildu ekki
kjósa hann sem fulltrúa sinn á Alþing, þó að þeir viðurkenndu hann sem þing-
skörung og frábæran mælskumann. Menn minntust þess, að góð samvinna hafði
verið með honum og sýslunefnd um önnur mál en kaupfélagsmálin, og á ágrein-
ingsmál það, er varð um stofnun búnaðarskóla í sýslunni, heyrði ég aldrei minnzt,
fyrr en ég rifjaði það upp í sýslufundargerðum, það virtist almenningi gleymt.
Mönnum fannst sem hann hefði gert Ljósavatn að eins konar höfuðstað héraðs-
ins, og virtist það engum öfundarmál. Þegar eins og frá því var að nokkru horfið
eftir aldamótin, kom það af sjálfu sér og sársaukalaust. Menn minntust ekki
harðræða eða undirferlis frá hans hálfu. Ég minnist þess ekki að hafa hitt fyrii
mann, er bar til hans haturshug, en mörgum fannst, að hann hefði verið ein-
kennilegur maður og mjög í brotum.
Sögur Þingeyinga um Benedikt skil ég rnjög á annan veg en Þorsteinn. Vissu-
lega eru Þingeyingar sögumenn miklir. Það er landlægt meðal þeirra að hafa
gaman af einkennilegum mönnum og hafa af þeim miklar frásagnir. Við það
er ekki annar mannamunur gerður en sá, hversu einkennilegir og eftirtektar-
verðir mennirnir þykja, og lýsa flestar sögurnar því, sem eftirtektarverðast er eða
þykir. Af mönnum, sem margar sögur hafa verið af sagðar, má t. d. nefna sýslu-
mennina Benedikt og Júlíus Havsteen, hreppstjóra eins og Jakob á Breiðumýri
og Snorra á Þverá, góðbændur eins og Einar í Reykjahlíð, Þórð í Svartárkoti og
Sigvalda á Fljótsbakka, skáld eins og Guðmund á Sandi og Baldvin Jónatansson,
presta eins og Hermann Hjartarson á Skútustöðum og Helga á Grenjaðarstöð-
um, og eru hér þó nefndir aðeins þeir, sem horfnir eru úr héraði og harðla ólíkir
hver öðrum. Þessar sögur eru sjaldan eins kersknisfullar og „kyniskar* og lausa-
vísur Þingeyinga, aðeins leitað eftir því, er þykir einkenna mennina. Sögurnar
um Benedikt einkennir það mest, að þær lýsa manninum sem þöndum streng
(á hljóðfæri), er bæði getur hljómað og brostið. Mönnum var vel kunn saga
hans, áður en hann kom í héraðið, einkum afskipti hans af Elliðaármálinu, sem
þeir höfðu að nokkru leikið eftir honum við Laxá, og þangað röktu þeir hræðslu
hans við drauga, veður og jafnvel ofsóknir, skopuðust að henni, en það skop var
hlandið samúð, og því var skopið ekki illgjarnt. Einhver meinlegasta sagan var
um það, að strákur hefði hent steinum í útikamarinn á Héðinshöfða, fyrsta „náð-
húsið“ í Þingeyjarsýslu, er Benedikt var þar inni. Þá hefði hann hlaupið út með
klæði sín sundurflakandi og hrópað: „Morð, morð. Það er skotið á mig á kamr-
inum.“ Víðast fór hins vegar sú saga, að liann hefði eitt sinn mætt nýbornum