Eimreiðin - 01.01.1927, Blaðsíða 46
26 HÚN VAR SVO RÍK, HÚN LAUFEY eimREIÐIN
hendurnar svo fast um hrífuskaftið að hnúarnir hvítnuðu. Nú
heyrði hún, að Halldór sneri sér við, vissi, að hann horfði a
hana. Hún fann, að hún fölnaði — og hún varð svo undar-
lega magnlaus. Það var eins og augnaráðið drægi úr henni
máttinn. Hún hætti að raka og studdist við hrífuna. Svo leit
hún upp. Og nú var það eins og svo oft áður: Það var sem
hún sæi sinn eigin einstæðingsskap í augum Halldórs . • •
Hrífan datt niður í heyið. Laufey rétti fram hendurnar — oS
orðin komu veikt og slitrótt.
— Ó, hjálpaðu mér, Halldór! Ég á svo bágt!
Svo var sem Halldór stirðnaði. Augun urðu stór og star-
andi, munnurinn opnaðist, og allir drættir í andlitinu urðu
skarpir og skýrir, eins og þeir væru mótaðir í stein ... Alt
í einu sneri hann sér við til hálfs, stóð því næst nokkur
augnablik og skotraði augunum til Laufeyjar, heimóttarlegur
og eins og ráðþrota. Svo hélt hann af stað, fór fyrst hægt,
eins og hann væri að læðast, síðan hraðara og hraðara, unz
hann var tekinn að hlaupa við fót.
Laufey horfði á eftir honum. Hún hélt höndunum fram-
undan sér, eins og hún ætlaði að seiða hann til sín. Svo sé
hún á hnén — og þá er Halldór var horfinn niður fyrir bæ-
inn, varpaði hún sér áfram og greip höndunum fyrir and-
litið ...
Eftir þetta reyndi Halldór ekki að ná fundum hennar.
Hann var enn þá einrænni en áður. Hann leitaðist við að
vera sem fjarst hinu fólkinu, þegar hann var við vinnu, dró
sig jafnvel frá því með mat sinn, þá er hann gat komið því
við. Og í frístundum sínum fór hann ávalt einförum.
Laufey hafði ekki verið í vafa um það, að Halldóri þótti
vænt um hana. En nú kom efinn. Hefði Halldór getað fengið
af sér að skilja svona við hana, ef hann elskaði hana? I
hvert skifti, sem þessari spurningu skaut upp í huga hennar,
var sem hún stæði á þverhníptri bergsnös og horfði niður í
kolsvart hyldýpi. Og hún hörfaði til baka og settist við blá-
lindir minninganna, spurði sjálfa sig, hvers vegna Halldór
hefði trúað henni einni fyrir leyndarmálum sínum og leitt
hana inn í heim drauma sinna og vona? Nei, það gat ekki
verið, að honum væri sama um hana. Hann hlaut að elska