Eimreiðin - 01.01.1927, Blaðsíða 38
18 HÚN VAR SVO RÍK, HÚN LAUFEY eimreiðiN
eftirvæntingu. Hún vissi svo lítið — en hafði vonað svo
mikið . . .
Hún hrökk við. Hún heyrði fótatak. Nú kom Halldór. Hún
starði niður á götuna — og það kom meira líf í augun.
Hugsanirnar urðu skýrari og vonirnar djarfari. Hún varð að
trúa því, að hann vildi henni eitthvað sérstakt. Hann hefði
ekki annars beðið hana að vera sér samferða í kvöld.
Þar eð Halldór kom að framan, sá hún hann ekki fyr en
hann var kominn heimfyrir steininn. Hann gekk utan við göt-
una, og hún heyrði skrjáfið í grasinu, heyrði lyngkvistina brotna
undir fótum hans. Hann fór hægt og hikandi og skimaði
heimyfir brekkuna. Nú nam hann staðar og stóð kyr um hríð.
Hún hélt niðri í sér andanum. Mundi hann nú snúa sér við
og sjá hana? Nei, nú h'élt hann áfram. Hún varð að láta
hann vita af sér. Og hún nefndi nafn hans, lágt, en skýrt.
Hann stanzaði og lagði hendurnar aftur fyrir bakið. Nokk-
ur augnablik starði hann á hana, eins og hann væri að átta
sig. Svo brosti hann hálfvegis vandræðalega, drap höfði og
gekk þegjandi til hennar.
Hann settist á þúfu beint á móti henni og hallaðist fram á
hendur sér. Hann horfði niður í grasið — og var alvarlegur
og þungbúinn. Við og við mjakaði hann sér til á þúfunni og
leit hornauga til Laufeyjar, órór og eins og hann væri í vafa.
Hún sat grafkyr, var tekin til augnanna og bleik sem bast.
Hún þrýsti olmbogunum á hnén og hélt höndunum fast utan
um höfuðið, til þess að leyna því, að hún skalf. Og hún leit
ekki af Halldóri.
Alt í einu rétti hann sig upp — og nú horfðust þau um
stund í augu. Svo leit hann undan — og mild og ugglaus
gleði breiddi sig yfir andlitið. Hann læddi hendinni niður a
brjóstið og dró upp litla bók, sem brugðið var um teygju-
bandi. Hann velti henni fram og aftur milli handa sér — og
rétti hana svo að Laufeyju. Hún tók gætilega við henni,
skoðaði hana utan og leit síðan spyrjandi á Halldór. Hann
kinkaði kolli, ánægjulegur og íbygginn. Og Laufey smeygði
af teygjubandinu og opnaði bókina. Svo leit hún aftur á Hall-
dór: Var það virkilega eins cg henni sýndist? Voru þetta
bankaseðlar? Hann kinkaði kolli á ný — og hún bar bókina