Eimreiðin - 01.01.1927, Blaðsíða 47
EIMREIÐIN HÚN VAR SVO RÍK, HÚN LAUFEY 27
hana, en hún hafði forðast hann, látið sem hún vildi hvorki
heyra hann né sjá — og nú treysti hann henni ekki lengur!
Hún taldi sér trú um þetta, unz það var orðið að vissu. Og
vissan veitti henni sársaukablandna sælu. Þó að hún væri
krypplingur, þá hafði samt karlmaður lagt hug á hana og
trúað henni fyrir því, sem hann sagði engum öðrum . . .
. . . En svo var það heimilisfólkið. Hún vissi, að því datt
ekki í hug, að Halldóri þætti vænt um hana. Sumt sýndi
henni meðaumkun, svo sem þær húsfreyja og Gróa — og
aftur á móti voru aðrir, eins og t. d. Þorbjörg, sem hreyttu í
hana skætingi og spottuðu hana. En í augum og látbragði
allra sá hún það sama:
— Hvers hefur hún að vænta af lífinu, hún, vesalings
krypplingurinn?
Og hún fann að hvert bros, hvert augnatillit, hvert með-
aumkunarorð og hvert spottyrði brendi sig inn í sál hennar.
En henni fanst sem líf hennar lægi við, að hún léti ekki bug-
ast. Hún lét sem minst á því bera, að henni liði illa. Hún
gerði sig kæruleysislega, þegar hún var spottuð, hún brosti,
þegar gráturinn tók fyrir kverkar henni. Og smátt og smátt
varð það hjá henni að föstum ásetningi að ná fundum Hall-
dórs, þá er tækifæri gæfist, vekja hjá honum minningarnar
um þær stundir, sem þau höfðu átt saman, og reyna að vinna
traust hans á ný.
V.
Kvöld eitt í sláttarlokin var danzskemtun haldin á Fagur-
eyri — og fór þangað sjö manns úr Hvammi. Heima voru
að eins húsráðendur, Sigfús gamli, faðir bónda — og þau
Halldór og Laufey.
Laufey hafði tekið að sér kvöldverkin — og þá er þeim
var lokið, bauð húsfreyja henni að lána henni bænakver og
leyfði henni að fá sér olíu á lampa. Laufey svaraði fáu til,
en þegar hún hafði þvegið sér og greitt inni í eldhúsinu, fór
hún með bænakverið fram í herbergi sitt og lagði það þar á
borðið. Síðan tók hún flösku, fór með hana út í skemmu og
fékk sér á hana olíu. En á leiðinni inn féll hún um gólfdulu