Eimreiðin - 01.01.1927, Blaðsíða 34
14 HÚN VAR SVO RÍK, HÚN LAUFEY eimreidiN
vinnu, stutt hendi undir kinn og horft niður fyrir fætur sér.
Svo brá hann kannske alt í einu við, þreifaði annari hendi á
brjóstinu, kinkaði kolli og brosti.
Laufey hafði veitt honum meiri athygli en öðrum rnönnum
— og henni fanst hún vera einhvernveginn öðruvísi í návist
hans en annara. Hún, einmitt hún, virtist vera eina manneskj-
an á heimilinu, sem hann gæfi nokkurn verulegan gaum.
Hann hafði stöku sinnum numið staðar hjá henni, eins og
hann ætlaði að yrða á hana — og hún hafði tekið eftir því,
að hann hvarflaði oft augunum þangað, sem hún var. Hugur
hennar dvaldi hjá honum oftar og oftar — og stundum, eink-
um þegar hún var háttuð á kvöldin og hafði dregið sængina
upp yfir höfuð — þegar enginn sá hana, og hún gat engan
séð, þá gægðist fram spurning úr leyndustu fylgsnum sálar
hennar.
— Getur það verið, að honum sé ekki sama um mig, mig
— vesalings krypplinginn?
Laufey brá við. Hún tók nú eftir því, að hún hafði góða
stund handleikið sömu fötuna — þá síðustu. Hún þurkaði
hana vandlega og hvolfdi henni hjá hinum, vatt úr dulunni og
hengdi hana á staur. Svo helti hún úr vatnsfötunni, studdi
annari hendinni á kálgarðsvegginn og starði út í húmið.
Hún heyrði þrusk innan úr stofunni. Nú stóðu þeir upp»
húsbóndinn og Halldór. Stofudyrnar voru opnaðar.
— Góða nótt! Það var húsbóndinn, sem talaði.
Laufey hlustaði. ]ú, hann fór til baðstofu . . . En Halldór
— hann gekk fram!
Hún tylti sér á tá og hélt niðri í sér andanum. Hægur
andvari kom hvíslandi ofan úr dalnum, læddist fyrir húshornið
og strauk mjúklega um vanga henni. Lausir lokkar hrundu
niður um andlitið — og hún kendi undarlegs, æsandi titrings,
er þeir fóru kitlandi um kinnarnar. Nú var Halldór kominn
út á hlaðið. Hún heyrði, að hann nam staðar — fann að
hann starði á hana — og það var sem hún væri stungin ör-
smáum nálaroddum í hálsinn við hársræturnar. Hún heyrði
andardráttinn að baki sér, hægan og þungan. Hún beit a
vörina og krepti höndina fastar um hölduna á fötunni. Nú
ræskti Halldór sig, eins og hann væri að láta vita af sér. En