Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1982, Blaðsíða 13
Ræður rektors Háskóla íslands
11
svo mætti segja, verður vart mikillar
spennu (eins og t.d. í verkfræði og
reiknifræði), sem finna verður leið til að
draga úr, ef ekki á að stefna í óefni.
— Fastir kennarar við Háskóla íslands hafa
margir menntun frá bestu háskólum í
heimi og hafa leitað fanga víðar en
starfsbræður þeirra í öðrum löndum.
Annars staðar á Norðurlöndum er það
vandamál að fá menn til að fara út fyrir
háskólalóðina, og stendur til að þvinga
þá til þess með lögum. Þetta vandamál
þekkjum við ekki. Aftur á móti hafa
fæstir kennaranna langa starfsreynslu úr
atvinnulífinu í sérgrein sinni, ef frá er
talin læknadeild og námsbrautir. Þetta
er þó ekkert einsdæmi í háskóla, og
mætti lengi ræða og bera saman við
önnur lönd. En ég læt nægja að geta
þess, að flutningur milli fyrirtækja og
háskóla á tæknisviðinu virðist einna
mestur í Bandaríkjunum og Vestur-
Þýskalandi, en miklu minni í Japan og á
Norðurlöndum.
Svo vill til, að háskólarannsóknir og
tengsl háskóla við atvinnulífið eru ofarlega
á baugi um þessar mundir í hinum stóra
heimi. Þetta er einkum vegna samdráttar í
atvinnulífinu og harðnandi samkeppni.
Smáríki hafa dregist aftur úr á tæknisviðinu,
og leitað er að sökudólgi þessarar þróunar.
Margir benda á háskólana, þótt ekki sé við
þá eina að sakast. Aðalatriðið er þó, að leit-
að sé ráða til að bæta samskipti fyrirtækja,
háskóla og opinberra aðila og ryðja úr vegi
hindrunum fyrir samstarfi og upplýsinga-
streymi milli háskólans manna og fyrir-
tækjanna, og verið er að athuga, hvaða
skilyrðum þarf að vera fullnægt, til þess að
hægt sé að standast samkeppni á tæknisvið-
inu á alþjóðamarkaði.
Eitt af því, sem kom fram við umræður
hér í þessum sal í gær, var, hvort ekki ætti að
stytta fræðilegt nám hér í háskólanum, en
auka verkþjálfun í fyrirtækjunum. Auðvitað
þurfum við á slíku fólki að halda. Sá hængur
er þó á, að fæstir nemendur vita fyrirfram,
hvar þeir koma til með að stunda vinnu.
Menntun héðan frá háskólanum miðast
við, að menn geti tekist á við hin margvís-
legustu störf í hverri grein og breytt sjálfum
sér. Svo dæmi séu tekin, þarf í læknisfræði
sífellt að fylgjast með nýjungum í lyfjagjöf
og tækni, verkfræðingar þurfa að laga
tæknina að þörfum sjúklinga, og læra þarf
stjórnunaraðferðir. Viðskiptafræðingur sem
brautskráðist fyrir 15 árum lærði ekki á
tölvur, og þannig mætti lengi telja.
Varðandi styttingu námsins verður mér
hugsað til kafla í nýútkomnu greinasafni
eftir Jónas H. Haralz, þar sem hann leggur
einmitt út af því, þegar menn vilja stytta sér
leið. Mig langar til að ljúka máli mínu með
því að gera orð Jónasar að mínum í þessu
efni:
„Að stytta sér leið
Þegar rektor Yale háskólans í Banda-
ríkjunum, Kingman Brewster, setti skóla
sinn haustið 1972, sagði hann eitthvað á
þá leið, að á undanfömum árum hefði
háskólaæska Bandaríkjanna verið að
reyna að stytta sér leið. Hún hefði krafist
þess, að námið í skólunum stefndi bein-
línis að lausn þeirra vandamála heimsins,
sem mest kölluðu að. Hún hefði einnig
með fyrirlitningu vísað á bug öllu því,
sem ekki virtist hafa gildi hér og nú. Loks
hefði nokkur hluti þessarar æsku viljað
beita mótmælaaðgerðum, jafnvel hreinu
ofbeldi, til að draga athygli að skoðunum
sínum og knýja fram sjónarmið sín. Allar
þessar tilraunir hefðu í bili haft nokkur
áhrif, en allar þó reynst árangurslitlar til
lengdar og, þegar frá leið, valdið sárum
vonbrigðum, jafnvel óbeit. Þetta ætti
engum að koma á óvart, sagði Kingman
Brewster, því að allar ættu þessar tilraunir
það sameiginlegt, að verið væri að reyna
að stytta sér leið. En framhjá skilningi
stytti enginn sér leið, og án skilnings yrði
ekki með árangri glímt við vandamál
mannlegs lífs eða mannlegs þjóðfélags.