Hugur - 01.01.2002, Side 66
Hugur
Stefán Snævarr
þeirra við önnur orð.18 Þannig er merking hál sem áll, við getum aldrei
höndlað hana fremur en gæfuna. Við sjáum aðeins spor hennar, ekki
hana sjálfa, rétt eins og spámenn biblíunnar sem sáu verksummerki
Guðs, ekki hann sjálfan. Merkingunni er sífellt slegið á frest, merking er
mismunur og frestun í senn. Því hefur nýyrði Derridas „différance“ ver-
ið þýtt sem ,„misfrestun“ á íslensku og fer vel á því.19
Annar áhrifamikill efahyggjumaður um skilning er Willard Van Orm-
an Quine (hann verður vart kallaður „efahyggjumaður um þýðingu“ en
það er önnur saga).20 Að hans mati má líkja skilningi okkar á yrðingum
við skilning mannfræðinga á tungumáli sem þeir hafa aldrei heyrt áður
og líkist engu máli sem þeir þekkja. Segjum nú að einstaklingur sem
mælir á þessa tungu bendi á kanínu sem kemur hoppandi eftir skógar-
stíg og segir „gavagai!“. Er gefið að mannfræðingnum beri að túlka „ga-
vagai“ sem „kanínu“? Öldungis ekki, segir Quine. Mannfræðingurinn
getur strangt tekið ekki útilokað að „gavagai“ merki í huga viðmælenda
síns „kanínuhlutir sem ekki hafa verið aðskildir“ eða „kanínuleiki á
hreyfingu“ o.s.frv. Hin rétta túlkun er ekki til, túlkanir eru vansannaðar
af staðreyndum og því getur fleiri en ein túlkun verið í samræmi við
sömu staðreyndirnar. í raun og sannleik er öll túlkun okkar á yrðingum
undir þessa sökina seld, við getum aldrei verið viss um hvort við skiljum
yrðingar annarra með sama hætti og þeir skilja þær sjálfir.21 Ekki þarf
mikla skarpskyggni til að sjá að hafi Davidson lög að mæla þá hefur
Quine á röngu að standa án þess að ég hyggist ræða þau mál frekar.
Náskyld pælingum manna á borð við Quine er sú skoðun efasinna að
allir textar séu margræðir. Alltént sýnist mér þetta vera höfuðatriðið í
kenningu Derridas um að allur lestur sé mis-lestur. Hægt er að skilja
sama texta á marga vegu, þess vegna er sérhver skilningur mis-skilning-
18 Ferdinand de Saussure: „On the Nature of Language" (þýtt úrval úr Cours de
lingustique générale) Michael Lane (ritstj): Structuralism: A Reader (London:
Cape 1969) bls. 43-57.
19 Eg fer kannski nokkuð frjálslega með kenningar franska póstmeistarans enda
ekki heiglum hent að skilja spekimál hans. Biblíudæmið er frá mér sjálfum kom-
ið en er mjög í anda meistarans. Jacques Derrida: „Différance“ (úrv.), Peggy
Kamuf (ritstj.): A Derrida Reader. Between the Blinds (þýðing úr frönsku) (New
York: Harvester, 1991) bls. 59-80.
20 Einhverjum þykir kannski skrítið að ég spyrði jafnólíkum hugsuðum og Quine
og Derrida saman. Svarið er einfaldlega að þeir eiga meira sameiginlegt en virð-
ist í fljótu bragði. Auk þess stunda menn eins og Rorty slíka furðuspyrðingar
grimmt, „hvað höfðingjarnir hafast að hinir ætla sér leyfist það“.
21 Eins og Quine-fróðir menn sjá hef ég einfaldað rök hans mjög. Willard Van Orm-
an Quine: Words and Objects (Cambridge, Mass: M.I.T. Press, 1960) einkum bls.
26-40.
64