Uppeldi og menntun - 01.01.2005, Síða 76
(Palmberg, 2000; Sherwood, 1999). Mai Palmberg (2000) hefur bent á í rannsókn sinni
á ímyndum Afríku í sænskum skólabókum að þar megi finna sambland af gömlum
og nýjum fordómum. Eldri fordómar séu til dæmis þeir að álfan eigi ekki sögu fyrir
komu Evrópubúa en dæmi um nýja fordóma er þegar þróunarhjálp Vesturlandabúa
er dregin upp sem bjargvættur fólks í Afríku. Luis Ajagán-Lester (1999) sem einnig
hefur fjallað um Afríku í sænskum skólabókum, bendir jafnframt á að iðulega er saga
Afríku látin hefjast við nýlendutímann og myndir bókanna tengja dökkan litarhátt
við vanþróun og eymd.
AÐALNÁMSKRÁ GRUNNSKÓLA
Í Aðalnámskrá grunnskólanna eru sett fram sameiginleg markmið náms fyrir alla
grunnskóla landsins. Hún er gefin út af menntamálaráðuneytinu og útfærir nánar
ákvæði laga um nám og setur meginstefnu hvað varðar skólamál. Í kynningarriti sem
fylgdi aðalnámskránni árið 1999 og nú er í gildi, lagði menntamálaráðherra áherslu
á að henni yrði fylgt eftir með útgáfu námsefnis og auknum fjárframlögum til endur-
menntunar og grunnmenntunar kennara (sjá umfjöllun Börkur Vígþórsson, 2003).
Eyrún María Rúnarsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir (1996) benda á náið samband
aðalnámskrár og námsefnis með orðunum að námsefnisgerð sé í raun hluti af
námskrá m.a. vegna þess að hún þjónar markmiðum hennar og hrindir henni í fram-
kvæmd. Í aðalnámskrá grunnskólanna frá 1999, kemur skýrt fram að kennari geti
sjálfur valið námsgögn auk þess sem áhersla er lögð á margvíslega miðla, svo sem
myndefni, hljóðefni og efni af netinu. Í henni segir ennfremur: „Kennarar bera fag-
lega ábyrgð á að velja heppilegustu og árangursríkustu leiðirnar til að ná markmið-
um aðalnámskrár og skólanámskrár“ (Menntamálaráðuneytið, 1999a, bls. 31). Einnig
kemur fram í nánari útlistun á námsgögnum: „Sem dæmi um námsgögn má nefna
prentað efni, s.s. námsbækur, handbækur og leiðbeiningarrit af ýmsu tagi, myndefni
ýmiss konar, s.s. ljósmyndir, kvikmyndir, myndbönd, veggspjöld, hljóðefni eins og
hljómbönd og hljómdiska, tölvuforrit, efni á netinu, margmiðlunarefni, efni til verk-
legrar kennslu o.fl.“ (Menntamálaráðuneytið, 1999a, bls. 33).
Þrátt fyrir áherslu aðalnámskrár á margvísleg námsgögn virðast námsbækur vera
einn mikilvægasti hluti grunnskólakennslu, eins og sjá má á áherslu menntamálaráð-
herra á útgáfu námsefnis sem leið til að fylgja markmiðum aðalnámskrár. Í rannsókn
Ingvars Sigurgeirssonar (1994) á notkun námsefnis meðal 10–12 ára grunnskólabarna
komst hann að þeirri niðurstöðu að 60,9% kennslutímans er námsefni í notkun, en
þetta hlutfall er þó nokkuð mismunandi eftir skólum og námsgreinum. Í rannsókn
Braga Guðmundssonar og Gunnars Karlssonar (1999) á söguvitund íslenskra ung-
menna kemur einnig fram að í sögukennslu grunnskólabarna er námsbókin þunga-
miðja þess sem gerist í kennslustundum. Einnig bendir Börkur Vígþórsson (2003) á í
umfjöllun sinni um Aðalnámskrá grunnskóla frá 1999 að útgáfa námsefnis fyrir
grunnskóla á Íslandi sé næstum öll í höndum Námgagnastofnunar sem þýðir að hér
er um öflugt tæki til miðstýringar að ræða. Þó má undirstrika eins og ég minntist á
hér fyrr, að nemendur eru ekki óvirk móttökutæki og kennarinn sjálfur túlkar að
sjálfsögðu texta bókanna eftir eigin hugmyndum.
M E N N T A Ð A R O G V I L L T A R Þ J Ó Ð I R :
76