Saga - 2001, Blaðsíða 172
170
HERMANN PÁLSSON
við rannsóknir á öðrum hlutum íslendinga sögu. Þau dæmi sem
ég tek til meðferðar eru yfirleitt siðræns eðlis og mega teljast
skyldur fróðleikur þegar glímt er við mannlýsingar frá hendi
Sturlu. Máli mínu til styrktar hirði ég nokkrar smágreinar aðrar úr
verki hans.
Ritskýring er einkum fólgin í sundurgreiningu og samanburði.
Hún telst ekki einungis til sjálfstæðra vísinda, heldur getur hún
stundum orðið ein af þernum sagnfræði, ekki síst þegar fengist er
við að kanna listrænar frásagnir af fomum atburðum. Eitthvert
fyrsta skrefið í úrlausnar átt er að leysa verk upp í frumþáttu sína,
og síðan eru þeir bornir saman við skyld atriði í öðrum bókum.
Sama máli gegnir um íslendinga sögu og aðrar ritsmíðar að efni
hennar er tungan sjálf, enda er hægt að rekja söguna sundur í orð,
setningar og málsgreinar. Þótt margar setningar og málsgreinar í
verki Sturlu láti heldur lítið yfir sér í snöggu bragði, eiga þær sér
hliðstæður í öðrum ritum; mikilvægi þeirra verður öllu ljósara
þegar Islendinga saga er lesin af sjónarhóli annarra bóksagna frá
þrettándu öld. Bækur æxlast af bókum. Sér í flokki eru spakar
setningar sem teljast til orðskviða.
Þegar málfræði sleppir eru frumþættir íslendinga sögu einkum
persónur (gerendur og þolendur), athafnir (orð þeirra og gerðir) og
hugmyndir (sem auðkenna persónur og athafnir). Vitaskuld eru
pólitísk og félagsleg vandamál mikilvæg í Islendinga sögu, svo
sem lög, refsingar, hefndir, völd, hlutverk goðorðsmanna, átök
með valdsmönnum, afstaða til Noregskonungs og sjálfræði al-
þingis. En í verki Sturlu fer mikið fyrir annars konar hugmyndum
sem eru persónulegs eðlis og varða þó skilning vom á íslendinga
sögu: vinátta, vinsæld, viska, hógværð, einurð, réttlæti, metnaður,
drengskapur, kurteisi, hreysti, örlæti, gestrisni, trúnaður og önnur
mannleg verðmæti skipa þar öndvegi; andstæður þeirra skjóta
upp kolli hingað og þangað. Vinátta skiptir einkar miklu máli í
verki Sturlu; ýmsa höfðingja skorti einurð og þeir létu vináttu sína
fala fyrir auð og völd; fornir vinir gerðust fjandmenn, og frændur
hikuðu lítt við að berast á banaspjót.
Þegar íslendinga saga er skýrð af sjónarhóli þeirrar mannúðar-
stefnu fyrri alda sem auðkennir Njálu, Hrafnkels sögu, EyrbyggjU/
Eglu, Laxdælu, Grettlu og aðrar fornsögur, kemur glöggt í ljós
hver reginmunur var með Sturlungaöld og söguöld, að svo miklu
leyti sem frásögnum verður treyst. Þó verður hinu naumast neit-