Saga - 2001, Blaðsíða 189
Á ÖRLYGSSTÖÐUM
187
Hér er merkilegur kveðskapur á ferðinni, hvort sem Þórir jökull
hefur ort hann á banastund ella kveðið vísu eftir annað skáld.
Brugðið er upp mynd af sjávarháska, þar sem eina lífsvonin er að
komast á kjöl. Skáldið kveður í sig kjark: að herða hug sinn og
setja ekki upp skeifu; hér muntu týna lífinu. Orðið skafl merkir
ekki einungis ,skeifu', heldur minnir það einnig á ,báruskafl'.
Köld sjávar drífa og regnskúr dynja á feigu skáldi, sem minnist
þess á efstu andartökum sínum að konur unnu honum forðum.
Mynd úr sjávarháska í slíkum kveðskap er einkar merkileg fyrir
þá sök að hún virðist ýja að drápi Jökuls Bárðarsonar stýrimanns
sem brátt verður minnst.
Síðan lýkur Þórir vísu sinni með fornu spakmæli, sem á sér
ýmsar hliðstæður, og skal hér fyrst minnast Jómsvíkings: „Eigi
man eg lög vor Jómsvíkinga ef eg hygg illt til eða kvíða eg við
bana mínum, eða mæla eg æðruorð, því að eitt sinn skal hver
deyja."is þórir jökull Steinfinnsson var móðurbróðir Játvarðar
Guðlaugssonar, fylgdarmanns Órækju, en annars er fátt um hann
vitað. Eftir Sauðafellsför hvatti hann til eftirreiðar, og hann er einn
af þeim áhangendum Sturlu sem réðust á menn Órækju í Kópa-
yík, komu að þeim óvörum sofandi í tjöldum og hjuggu nokkra
miskunnarlaust til bana.
Viðumefni Þóris jökuls, dánarvísa og ævilok minna á Jökul
Bárðarson, móðurbróður Grettis sterka, sem lenti í þjónustu Há-
konar jarls Eiríkssonar. Eitt sinn tók jarlinn nokkur skip Ólafs
Haraldssonar konungs og kom þá í hlut Jökuls að stýra því skipi
sem Vísxmdur hét. Það var einkar vandað, „allra skipa mest. Var á
framstafni vísimdarhöfuð gulli búið." Ólafur hinn digri var jafnan
langminnugur á hvern ógreiða sem honum var gerður, enda hafði
skipsránið ekki horfið honum úr minni þegar fundum þeirra Jök-
uls bar saman næst:
Það er hér skjótast að segja, er síðar varð mjög miklu, að Jökull
varð fyrir liði Ólafs konungs á Gotlandi og varð handtekinn, og
25 Jómsvíkinga saga, bls. 195.- Slíks hetjuskapar gætir víðar, enda átti hann sér
bæði norrænar og suðrænar rætur. í Völsunga sögu (18. kap.) ræðir
Sigurður Fáfnisbani við helsærðan drekann: „Hver vill fé hafa allt til hins
eina dags, en eitt sinn skal hver deyja." Náskyld spakmæli koma fyrir í
Karlamagnúss sögu, Örvar-Odds sögu, Knýtlinga sögu, íslenzkum ævintýr-
um og víðar.