Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1929, Qupperneq 86
52
TÍMARIT ÞJOÐRÆKNISFELAGS ISLENDINGA
Sambandið við guðina var fyrst
og fremst miðað við hjálp þeirra í
þessu lífi. Að vísu trúðu menn á
annað líf og virðast hafa hugsað
sér það allmjög í líkingu við lífið
hér á jörðu, en ekki virðist sú trú
hafa átt mikinn þátt í daglegri
breytni manna eða því, hvernig þeir
urðu við dauða sínum. Hugsjónir
þessa lífs lýstu fram í dauðann.
Dauðinn var fullnaðarpróf mann-
gildisins. “Þá skuld eiga allir að
gjalda,’’ og aldrei tekst söguritur-
unum betur upp en er þeir lýsa
mönnum, er greiddu hana með
frjálsmannlegri rausn og skörungs
skap.
Bæði í Eddukvæðunum og í sög-
unum birtist römm forlagatrú, að
“eigi má við sköpun sporna’’ og að
margt verður “meirr af forlögum
ok atkvæði rammra hluta en fýsi.”
Þessi trú kemur í ljós einmitt á
þeim stundum, er um mikilvæg at-
vik í lífi manna er að tefla, svo sem
um kvonfang eða gifting, um hólm-
göngu eða hervirki, afturhvarf til
ættjarðarinnar eða landnám í nýju
landi, um ósætti manna á milli, um
höpp og óhöpp og fyrst og fremst
um dánardægrið, að enginn komist
yfir skapadægur sitt, en að “hverj-
um bergr nokkut, ef ekki er feigr.’’
Af sama toga er trúin á drauma og
fyrirburði. Þessi forlagatrú hefir
þó ekki lamað athafnaþróttinn,
heldur miklu fremur stælt hann.
Svo hefir Sverrir konungur litið á,
er hann eitt sinn talaði fyrir lið-
inu, áður en orusta hófst, og sagði
þessa sögu:
“Svá sagði ok einn búandi, er
hann fylgdi syni sínurn til herskipa,
ok réð honum ráð; bað hann
vera hraustan ok harðan í mann-
raunum: lifa orð lengst eptir hvem,
sagði hann; eða hvernig myndir þú
hátta, ef þú kæmir í orrostu, ok
vissir þú þat áðr, at þar skyldir þú
falla? Hann svarar: hvat væri þá
við at sparast at höggva á tvær
liendr? Karl mælti: nú kynni
nokkurr maðr þat at segja þér með
sannleik, at þú skyldir eigi þar
falla? Hann svarar: hvat væri þá
at hlífast við at gangast fram sem
bezt? Karl mælti: í hverri orrostu,
sem þú ert staddr, þá man verða
annathvárt, at þú munt falla eða
braut komast, ok ver þú fyrir því
djarfr, at allt er áðr skapat; ekki
kemr úfeigum í hel, ok ekki má
feigum forða; í flótta er fall verst.’’
Hver maður er eftir þessari lífs-
skoðun líkt staddur og hermaður
í leiðangri, sem stjórnað er eftir
fyrirfram gerðri áætlun, er hann
þekkir ekki. Skipinu verður hann
að fylgja; hann ræður því ekki,
hverjir félagar hans eru, eða hvar
skipið kemur við land, eða hvenær
hann lendir í orustu eða við hverja
þar verður að eiga, og hann veit
fæst af þessu fyr en jafnóðum. Hitt
finnur hann með sjálfum sér, að
hann getur ráðið því, hvernig hann
tekur því, sem við ber hverja stund-
ina, og að það er undir honum sjálf-
um komið, hvort hann reynist góður
drengur og getur sér frægð, eða ó-
drengur og “hróðrs örverðr.”