Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1937, Síða 41
Hrynhenda
Eftir Gísla Jónsson
Iðunn—grein á Mímis meiði,
móðir kynstór æsku og ljóða,
Braga kvon og systir Sögu,
Svásaðar kyns og fleiri Ása—
kveður hljóðs! Á söngva sviði
svellur alda ljóðs og fellur.
Heyri þjóð um hauður og báru
hróðmál dýrstum kveðin óði:—
*
Ljóð er upprás allra guða,
eldi farið himins veldi,
eldra en ragna Ýmis galdur,
ungt sem bros á hvítvoðungi,
draumur þess er um djúpið sveimar,
dagrenningar geisli fagur,
skaparans þraut í næðings nepju,
neyðarkall á villuleiðum.
Ljóð er fylling lífs og aðall,
leifturbraut milli fjarra skauta,
fyrsta hræring hugans þorsta,
hljómur síðsti að Stóradómi.
“Verði ljós”—var Ijóðsins furða.
Ljóð er magn til dýpstu þagnar,
glæstur blossi æskuástar,
undur lífs til hinstu stundar.
Ljóð er fræið fyrsta, smáa,
fljótum stærra, tindum hærra,
öldufall, er á súðum svellur,
sól með vor í hverju spori,
stjörnudans á hörkuhjarni,
hvim í norðurljósabrimi,
myndir augans, máttur handa,
meitlaður guð í björg og stuðla.