Búskapur hins opinbera 1980-1989 - 01.03.1991, Blaðsíða 93
banka. í framhaldinu verður aðeins vikið að
þessum þáttum.
Hvað varðar opinber (hálf-opinber) fyrirtæki
þá hafa stjórnvöld mismikil áhrif á slík fyrirtæki
og því mismunandi áhrif í gegnum þau. Á sum
þeirra hafa þau engin áhrif en á önnur allmikil.
Erfitt er að finna algilda reglu sem segir til um
hver þeirra skuli telja með hinu opinbera og
hver með einkaaðilum. Almenna reglan er sú að
með einkaaðilum skuli telja þau fyrirtæki sem
standa að öllu eða verulegu leyti undir kostnaði
við starfsemi sína með tekjum af sölu á vöru og
þjónustu, og fjármagna fjárfestingar sínar með
lánum á fjármagnsmarkaðnum með sambæri-
legum kjörum og einkaaðilar. Ef fyrirtæki
standa hins vegar ekki undir kostnaði sínum
með sölu á vöru og þjónustu, og þiggja fram-
leiðslustyrk eða fjármagnstilfærslur frá stjórn-
völdum, er álitamál hvort telja eigi þau með
einkaaðilum eða með hinu opinbera. Sama má
segja um fyrirtæki sem fjármagna sig með lán-
tökum, sem eru mun hagstæðari en gildandi
markaðskjör vegna opinberra afskipta eða sem
greiðast munu með skatttekjum stjórnvalda í
framtíðinni. Það er augljóst að afkoma síðast-
nefndu fyrirtækjanna er undir stjórnvöldum
komin, og því undir áhrifavaldi þeirra. Hvar
mörkin skulu dregin er erfitt að segja, sennilega
þarf að meta sérhvert fyrirtæki fyrir sig. Einnig
geta fyrirtæki verið mjög misháð hinu opinbera
á mismunandi tímum. Meginreglan, sem hægt er
að styðjast við í þessu samhengi, er að telja með
hinu opinbera þau fyrirtæki sem grundvalla
starfsemi sína á nútíðar og framtíðar skatttekj-
um hins opinbera.
Hvar varðar opinbera (hálf-opinbera) sjóði,
þá hafa stjórnvöld mismikil áhrif á hagkerfið
gegnum þá. Á suma sjóði hafa þau lítil áhrif, en
á aðra allmikil. Erfitt er að finna algilda reglu
um hvaða sjóði skuli telja með hinu opinbera og
hvaða með einkaaðilum. Þó er til regla sem segir
að með hinu opinbera skuli telj a þá sjóði sem eru
fjárhagslega samvaxnir stjórnvaldinu, og þá sem
hafa ekki umboð til að kaupa eða gefa út
verðbréf nema með heimild stjórnvalda. Sam-
kvæmt þessari reglu skulu þeir opinberu sjóðir
sem eru sjálfstæðir í starfsemi sinni gagnvart
opinberum aðilum, og fjármagna sig sjálfir með
eigin tekjum (framlögum) eða lántökum á fjár-
magnsmarkaðnum, teljast með einkaaðilum.
Þessi regla er þó ekki algild né gallalaus.
í fyrsta lagi getur stjórnvald í vissum tilfellum
virkað sem fjármagnsmiðlari, þ.e. tekið lán á
fjármagnsmarkaðnum og endurlánað. Ef slík
endurlán eru til einkaaðila sem annars eiga
greiðan aðgang að fjármagnsmarkaðnum er slík
starfsemi áhrifalítil (nema hegðun einkaaðilans
breytist þess vegna). í slíkum tilfellum má
flokka þess konar stjórnvöld (sjóði) með einka-
aðilum. Öðru máli gegnir um sams konar starf-
semi ef endurlánað er til einkaaðila sem hafa
ekki aðgang að fjármagnsmarkaðnum nema
með þessum hætti. í slíkum tilfellum væri senni-
lega rétt að flokka sjóðinn með hinu opinbera.
Nú getur einkaaðilinn, sem hlýtur lán, ýmist átt
greiðan eða engan aðgang að hinum frjálsa
fjármagnsmarkaði. Áhrif stjórnvalda (sjóðsins)
á hagkerfið ræðst þá af því hve greiður aðgangur
hans er. Hvar draga á mörkin er að sjálfsögðu
mjög erfitt að segja til um.
í öðru lagi geta kjör og skilyrði lánanna verið
mjög mismunandi. í vissum tilfellum geta lána-
kjörin verið langt undir markaðskjörum sam-
svarandi lána, sömuleiðis getur endurgreiðslum
verið þannig háttað að lánin verða ekki greidd
upp að fullu, þ.e. gengið er á framtíðar skatt-
tekjur hins opinbera. í slíkum tilvikum er álita-
mál hvort sjálfstæður sjóður, sem lánar út á
slíkum kjörum, skuli flokkaður með einkaaðil-
um eða opinberum aðilum. Hér gilda sömu
reglur og um opinber fyrirtæki, þ.e. sjóður sem
byggir á nútíðar og framtíðar skatttekjum hins
opinbera skal talinn til hins opinbera. En að
auki ef sjóður í eigu hins opinbera hefur mikil og
önnur áhrif á hagkerfið en hinn frjálsi fjár-
magnsmarkaður hefði, þá skal hann flokkaður
með hinu opinbera að hluta eða öllu leyti.
Útfrá ofangreindum reglum er hægt að skoða
hvert fyrirtæki og hvern sjóð í eigu eða með
eignaraðild hins opinbera og meta í hve ríkum
mæli viðkomandi sjóður eða fyrirtæki er háð
91